Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segist treysta því að meirihlutinn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafi komist að „góðri niðurstöðu“ við frumkvæðisathugun nefndarinnar á hæfi Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Í síðustu viku lagði Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknar og framsögumaður málsins inni í nefndinni, fram bókun um að hún teldi frekari könnun á hæfi Kristjáns Þórs „tilgangslausa“. Þar með hefur meirihluti nefndarinnar tjáð vilja sinn um að halda athuguninni ekki áfram, en minnihlutinn vill þó halda henni áfram.
Samþykkt var að fara í frumkvæðisathugun á hæfi Kristjáns í desember, en til þess að koma ferlinu af stað þarf ekki meirihluta innan nefndarinnar. Málum var hagað þannig að Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, varð ekki framsögumaður málsins þó að hún hefði lagt það fram. Í staðinn varð Líneik framsögumaðurinn. Til skoðunar var hæfi sjávarútvegsráðherrans gagnvart útgerðarfélaginu Samherja, en hann var stjórnarformaður þess fyrir aldamót um hríð.
„Meirihluti nefndarinnar kemst að þessari niðurstöðu og ég uni henni,“ segir Katrín í samtali við mbl.is. „Samkvæmt mínum upplýsingum hefur ekkert komið fram í umfjöllun nefndarinnar sem gefur til kynna að ráðherra sé vanhæfur til að sinna sínum störfum. Ég hef ekki ástæðu til að efast um þá niðurstöðu,“ segir Katrín.
Katrín segir þá að hér eftir sem hingað til beri hún fullt traust til Kristjáns Þórs Júlíussonar.
Þórhildur Sunna gagnrýnir í samtali við mbl.is að málið sé leitt til lykta með bókun í stað þess að ljúka því með formlegum hætti. Til þess að ljúka því með formlegum hætti væri frekar hægt að útbúa skýrslu um athugunina, þar sem sjónarmið beggja hliða kæmu fram, og sem væri síðan hægt að hafa til umræðu í þinginu.
„Þau vilja ekki ræða þetta mál í þingsal. Það er alveg augljóst. Ég sé bara að ráðherrann, sem hélt því fram að hann hefði ekkert að fela, getur nú skýlt sér á bak við að meirihluti nefndarinnar segi að hann þurfi ekki að svara meiru. Þau eru þar með búin að rannsaka sjálf sig og það er ekki sérlega trúverðugt. Það er augljóslega hægt að spyrja sig hvort þar sé samtrygging í gangi,“ segir Þórhildur.
„Ef þú hefur ekkert að fela þarftu ekki að láta loka rannsókn áður en henni er lokið,“ segir Þórhildur.