Ekki er heimilt að framlengja gildistíma ferðagjafar sem öllum Íslendingum fæddum 2002 eða fyrr verður úthlutað síðar í þessum mánuði. Gjafabréfið er hugsað til að nota á ferðalagi um Ísland í sumar. Verði fjárhæð ferðagjafar hækkuð þarf að líta til sjónarmiða um undanþágu tækifærisgjafa frá skattskyldu. Þetta er meðal þess sem fram kemur í áliti atvinnuveganefndar Alþingis um frumvarp til laga um ferðagjöf.
Í frumvarpinu er lagt til að gildistími ferðagjafar sé frá útgáfudegi til og með 31. desember 2020. Vestfjarðastofa og Samband íslenskra sveitarfélaga leggja til í umsögnum sínum að æskilegt sé að gildistíminn verði lengdur til og með 31. maí 2021, m.a. með vísan til jafnræðis á milli landshluta og ferðaþjónustuaðila. Benda þau á að gildistíminn sé ekki í samræmi við stefnumörkun stjórnvalda um eflingu heilsársferðaþjónustu, þ.e. að dreifa ferðamönnum betur um landið og jafna árstíðasveiflur.
Nefndin minnir á að ferðagjöfin er aðgerð sem felur í sér ríkisaðstoð samkvæmt 61. grein EES-samningsins og er jafnframt tilkynningarskyld til Eftirlitsstofnunar EFTA og taki mið af þeim viðmiðum sem sett voru í orðsendingu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um tímabundinn ramma um ríkisaðstoð til stuðnings hagkerfinu vegna kórónuveirufaraldursins. Meðal skilyrða er að aðstoð sé veitt í síðasta lagi 31. desember 2020 og því er það mat nefndarinnar að ekki sé hægt að framlengja gildistímann fram yfir næsta ár.