„Ég vil þakka Pétri Jóhanni, Birni Braga og Gillz fyrir þessa 12 sekúndna innsýn í heim fordóma, (menningarlegs) rasisma og kvenfyrirlitningar á Íslandi í dag,“ skrifar Sema Erla Serdar, aðgerðasinni og formaður Solaris, hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi, í stöðuuppfærslu á Facebook.
Þar deilir hún myndbandi af Pétri Jóhanni Sigfússyni grínista í afmæli Egils Einarssonar um helgina. Í myndbandinu virðist Pétur vera að skopstæla asíska konu sem býðst til þess að „clean home“ eða „suck penis“. Um leið sviðsetur hann það sem getur verið skilið sem munnmök með handahreyfingum.
Þessir tilburðir virðast vekja kátínu meðal viðstaddra, meðal annars Björns Braga Arnarssonar og Egils Einarssonar. Björn Bragi setti myndbandið í „story“ á Instagram um helgina.
Sema Erla gagnrýnir myndbandið harkalega og segir þá hegðun sem birtist í myndbandinu vera „stórkostlegt dæmi um forréttindablindu hvíta miðaldra karlmannsins sem trúir því virkilega að það séu engir fordómar eða rasismi á Íslandi.“
Hún segir „þvílíka skömm að þessari rasísku hegðun.“
Sema setur þetta þá í samhengi við umræðuna undanfarið um kynþáttafordóma víða um heim og skrifar áfram um nefndan hvítan miðaldra karlmann:
„Sjálfur er hann svo hrikalega flottur og frábær og algjörlega ómeðvitaður um sín forréttindi og sitt framlag til þess að viðhalda valdakerfi og kúgun feðraveldisins, rasismans og hvítra yfirburða að honum finnst þetta bara í lagi — þrátt fyrir umræðuna síðustu daga (þetta myndband er tekið upp um helgina)!“