Íbúar við Eiðsgranda í Reykjavík hafa sett sig í samband við Morgunblaðið vegna grjóthrúgna sem þar hafa staðið undanfarnar vikur og mánuði. Norðan við þessar hrúgur má finna gang- og hjólreiðastíga.
Hafa íbúarnir meðal annars lýst yfir mikilli óánægju með grjótið, sem þeir segja litla prýði vera að.
Reykjavíkurborg segist kannast við óánægju íbúanna, búið sé að ræða við nokkra íbúa á svæðinu, og bendir á að verkið eigi enn eftir að taka einhverjum breytingum frá núverandi mynd. Hver endanleg mynd verði sé ekki alveg vitað, mögulega verði einhver gróður settur í grjóthrúgurnar.
„Þetta verður leyst í góðri sátt við árvökul augu nágrennisins,“ segir talsmaður borgarinnar, en hrúgurnar eiga að kallast á við sjávargrjótið í fjörunni skammt frá. khj@mbl.is