Ísland er friðsælasta land í heimi þrettánda árið í röð, samkvæmt friðarvísi Stofnunar um hagsæld og frið (Institue of Economics and Peace’s Global Peace Index) sem gefinn var út í dag. Hefur Ísland toppað listann öll ár frá árinu 2008 er fjöldi þeirra ríkja, sem skýrslan nær til, var stóraukinn og Íslandi bætt í hópinn. Friðsæld í heiminum minnkar milli ára, en þetta er fjórða árið af síðustu fimm sem það er raunin. Hefur friðsæld í heiminum minnkað þó nokkuð frá því farið var að gefa listann út í núverandi mynd árið 2008.
Evrópa er sem fyrr friðsælasta álfan, en þar eru sex af tíu friðsælustu ríkjum heims, en verst er ástandið í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku. Næst á eftir Íslandi er Nýja-Sjáland, en því næst Portúgal, Austurríki og Danmörk og er röð efstu landa óbreytt frá því í fyrra. Botnsæti listans vermir Afganistan en skammt undan eru Sýrland, Írak og Suður-Súdan.
Meðal þeirra þátta sem litið er til við gerð listans eru glæpatíðni, hryðjuverkaógn, fjöldi fanga, alþjóðlegar deilur sem lönd eiga aðild að, hernaðarumsvif og aðgengi að vopnum. Af 23 þáttum sem litið er til reyndist jákvæð breyting milli ára í átta þáttum, en neikvæð í tólf.
Staða í öryggismálum, aukinn pólitískur óstöðugleiki, ofbeldisfull mótmæli og fjölgun fanga er meðal þess sem er talið minnka friðsæld heimsins milli ára. Þrátt fyrir það eru jákvæð teikn á lofti á ýmsum sviðum. Þannig hafa, frá árinu 2008, 113 ríki heims, vænn meirihluti, fækkað í herliði sínu, 100 dregið úr hernaðarútgjöldum sem hlutfalli af landsframleiðslu og 67 dregið úr magni kjarnorku- og þungavopna. Þá hefur morðum fækkað í 117 ríkjum.