„Sjálfstæðisflokkurinn treystir honum ekki“

Þorvaldur Gylfason hagfræðiprófessor var ekki ráðinn sem ritstjóri norræns hagfræðirits …
Þorvaldur Gylfason hagfræðiprófessor var ekki ráðinn sem ritstjóri norræns hagfræðirits eftir að boð bárust stjórnendum ritsins frá íslenska fjármálaráðuneytinu um að ráða hann ekki. Guðmundur Andri Thorsson þingmaður Samfylkingarinnar segir ráðherra bera ábyrgð á gjörðum ráðuneytisins. mbl.is

Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, vill kalla Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd til þess að inna hann eftir svörum um framgöngu fjármálaráðuneytisins í máli þar sem ráðuneytið kom í veg fyrir að Þorvaldur Gylfason hagfræðiprófessor fengi stöðu sem ritstjóri norræns hagfræðirits.

Guðmundur segir í samtali við mbl.is að óboðlegt sé að ráðuneyti fari með rangfærslur um einstaklinga í samskiptum við erlenda aðila, en eins og Kjarninn greindi frá í gær rökstuddu starfsmenn ráðuneytisins þá afstöðu sína að Þorvaldur ætti ekki að fá stöðuna með því að hann væri formaður stjórnmálaflokks, þ.e. Lýðræðisvaktarinnar. Það er rangt.

Segjast hafa stuðst við Wikipedia

Ráðuneytið hefur sagt að rangfærslan helgist af því að notast var við upplýsingar af ensku Wikipedia, en Guðmundur Andri gefur lítið fyrir þær skýringar. „Allir sem fylgjast bara örlítið með íslenskum stjórnmálum, sem ég held að starfsmenn fjármálaráðuneytis geri, vita að Þorvaldur er ekki formaður í stjórnmálaflokki og hefur ekki verið í mörg ár,“ segir Guðmundur.

Kosningar 2013, en þá bauð Lýðræðisvaktin fram í alþingiskosningum. Bjarni …
Kosningar 2013, en þá bauð Lýðræðisvaktin fram í alþingiskosningum. Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins, Árni Páll Árnason, þáverandi formaður Samfylkingar, og Þorvaldur Gylfason, þáverandi formaður Lýðræðisvaktarinnar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Í bréfum sem Kjarninn birtir skrifar ráðuneytið að „Ísland [sé] ekki tilbúið til þess að mæla með eða styðja ráðningu Þorvalds sem ritstjóra. Við fögnum þeirri tillögu að ritstjórnin færist að einhverju marki á milli landanna, en við myndum frekar vilja mæla með öðrum Íslendingi síðar en að mæla með Þorvaldi núna.“ Þegar ráðuneytið var síðan spurt á hverju þessi sjónarmið byggðust, hélt það því fram að Þorvaldur væri formaður stjórnmálaflokks.

Guðmundur segist hafa litla trú á því sem ráðuneytið heldur fram, að hér sé um glöp einstaklings sé að ræða, og að ráðherra hafi verið ómeðvitaður um ráðstöfunina. „Ég hef enga trú á því að hér hafi verið að verki einn maður, eins og reynt er að telja okkur trú um. Þetta er ráðuneytið að verki og ráðherra ber náttúrulega ábyrgð á framgöngu sinna manna,“ segir Guðmundur.

Af þessum sökum vill Guðmundur fá fjármálaráðherra fyrir nefndina til þess að fá nánari skýringar á þessu framferði. Þær sem komið hafi fram séu ófullnægjandi. 

„Sjálfstæðisflokkurinn treystir honum ekki“

Guðmundur segir Þorvald hafa verið fullhæfan til þess að taka við ritstjórn umrædds tímarits, en að rangfærslur ráðuneytisins hafi komið í veg fyrir ráðningu hans.

„Þorvaldur hefur tjáð sig umbúðalaust um þjóðmál og hefur verið duglegur að skrifa blaðagreinar og þar fram eftir götum. Hann er virtur fræðimaður á sínu sviði á alþjóðavísu og hefur alla burði til að taka við þessari stöðu. Það er aðalatriðið, en Sjálfstæðisflokkurinn treystir honum ekki og þar með er komið upp eins konar „Berufsverbot“ sem nær út fyrir landsteinana. Það er alvarlegt mál,“ segir Guðmundur og vísar með Berufsverbot til banns sem vesturþýsk stjórnvöld lögðu við því að menn kommúnísks þankagangs fengju störf hjá opinberum stofnunum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert