Róbert Ingi Douglas, leikstjóri og upplýsingastjóri Pírata, hefur þakkað Semu Erlu Serdar fyrir að vekja athygli á „ógeðslegum rasisma“ í tengslum við gagnrýni hennar á grínistann Pétur Jóhann Sigfússon.
„Ef þú hugsar með þér „það má ekkert lengur“ eða „þetta er bara grín“ þá ertu hluti af vandamálinu og þarft að fara í góða innri sjálfsskoðun. Rasismi er aldrei í lagi, sama í hvaða formi hann birtist!“ skrifar Róbert á Facebook-síðu sína.
Sema Erla, sem er aðgerðasinni og formaður Solaris, hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi, birti færslu með myndbandi af Pétri Jóhanni í afmæli Egils Einarssonar um helgina þar sem hún sakaði hann um rasisma. Í myndbandinu virðist Pétur vera að skopstæla asíska konu sem býðst til þess að „clean home“ eða „suck penis“. Um leið sviðsetur hann það sem getur verið skilið sem munnmök með handahreyfingum.