Hiti á Hallormsstöðum mældist 22,8 gráður í dag, en um er að ræða mesta hita sem mælst hefur á landinu í ár. Þetta staðfestir vakthafandi veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands. Þá mældist hiti 22,4 gráður á Egilsstaðaflugvelli og 21,2 gráður í Ásbyrgi.
Sérstaklega veðursælt hefur verið á Austurlandi og stefnir í að það muni halda áfram á komandi dögum. Veðurfræðingur Veðurstofunnar segir að svipuð spá sé í kortunum á næstu dögum, og ekki sé ólíklegt að hiti á landinu mælist hærri en 22,0 gráður seinna í dag eða á morgun.