Sakaði Guðna um ódrengilega kosningabaráttu

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Guðmundur Franklín Jónsson.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Guðmundur Franklín Jónsson. Samsett mynd

„Ert þú stoltur af framgöngu þinni hér í kvöld?“ spurði Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, mótframbjóðanda sinn Guðmund Franklín Jónsson í þættinum Barist um Bessastaði í kvöld.

Guðmundur svaraði því játandi og vildi Guðni ekki spyrja hann fleiri spurninga þrátt fyrir að eiga kost á því. Kappræður þeirra, þegar rétt rúmar tvær vikur eru til forsetakosninga, voru sýndar í beinni útsendingu á Stöð 2.

Gagnrýndi auglýsingar Ferðamálastofu

Rætt var um kosningabaráttunna og gagnrýndi Guðmundur að forsetahjónin skuli birtast í sjónvarpsauglýsingu Ferðamálastofu þar sem fólk er hvatt til að ferðast innanlands í sumar. Hann sagði kosningabaráttuna alls ekki drengilega af hálfu Guðna. „Það er spilling að forseti Íslands sé að nota sér tækifæri einum mánuði fyrir kosningar að haga sér þannig. Það er ekki drengileg frammistaða finnst mér,“ sagði Guðmundur.

Stoltur af öllu

Fréttamennirnir Heimir Már Pétursson og Elín Margrét Böðvarsdóttir stjórnuðu þættinum og spurði Heimir Már Guðmund hvort hann væri stoltur af því að vera Íslendingur „með þína fortíð“? Bætti hann við að Guðmundur hafi verið sakaður um að fara illa með lífeyrissjóði.

„Ég hef aldrei á ævinni farið illa með nokkurn einasta mann,“ svaraði Guðmundur. „Ég er mjög stoltur af öllu sem ég hef gert, öfugt við kannski þig,“ sagði hann og átti við Heimi Má, sem sagði það ekki vera hlutverk Guðmundar að spyrja hann spurninga. Sjálfur mætti hann vel spyrja hann persónulegra spurninga sökum þess að hann er í framboði.

„Það er ekki hver sem er sem getur starfað á Wall Street í þrettán ár,“ sagði Guðmundur þá.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Eliza Reed forsetafrú er …
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Eliza Reed forsetafrú er þau fóru í skimun hjá Íslenskri erfðagreiningu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Byrja á því að selja auðlindirnar“

Í lok þáttarins fluttu þeir Guðmundur og Guðni stutt ávörp. Guðmundur sagðist vera að bjóða sig fram fyrir fólkið í landinu sem öryggisventil á Bessastaði og til að stoppa sölu auðlinda. Hann sagði allt vera í lamasessi hér á landi vegna kórónuveirunnar og kvaðst ekki hafa heyrt neinar tillögur frá ríkisstjórninni um að spara pening, heldur bara að eyða. „Ég er klár á því að ef ég verð ekki kosinn forseti munu þeir byrja á því að selja auðlindirnar. Þeirra nýja mantra verður: „Hér varð covid. Hér verður allt selt,“ sagði hann og nefndi Landsvirkjun og bankana sem dæmi. 

Máttur í samstöðunni

Guðni sagði forseta Íslands eiga að stefna að því sem sameinar fólk frekar en því sem sundrar það. „Við eigum öll þann rétt að lifa hér með reisn, rétt til að sýna hvað í okkur býr, okkur sjálfum og samfélaginu til heilla,“ sagði hann.

Hann sagði síðustu mánuði hafa verið erfiða og að fólk hafi látist vegna veirunnar. Hann sagði efnahagsafleiðingarnar eiga eftir að verða þungar en að lagt hafi verið traust á vísindi og þekkingu og að máttur hafi fundist í samstöðunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert