„Gæti sést til sólar öðru hverju“ í dag

Það verður skýjað með köflum í dag.
Það verður skýjað með köflum í dag. mbl.is/Rax.

Það er ekki beint spennandi veður í kortunum fyrir daginn í dag eftir því sem fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands. Það verður þó „þurrt að mestu og gæti sést til sólar öðru hverju“.

Það verður suðvestlæg eða breytileg átt, 3-8 m/s. Skýjað með köflum og þurrt að kalla en þykknar upp norðvestan til á landinu í kvöld með dálítilli rigningu eða súld.
Hiti verður á bilinu 7 til 15 stig, hlýjast á Austurlandi.

Í hugleiðingum veðurfræðings segir að suðlægar áttir verði ríkjandi næstu daga með vætu öðru hverju þegar úrkomubakkar ganga yfir úr vestri. Það verður hins vegar þurrt að mestu í dag og gæti sést til sólar öðru hverju.

Á morgun og hinn verður þungbúnara og blautara, einkum sunnan- og vestanlands annað kvöld og á mánudag. Úrkomulítið og meinlaust veður á þriðjudag og útlit fyrir þurrt veður um allt land 17. júní sem er ekki sjálfgefið eins og flestir vita. Hiti yfirleitt á bilinu 7 til 15 stig að deginum.

Veðurhorfur næstu daga

Á mánudag:
Sunnan 5-13 m/s með rigningu, en styttir víða upp vestan til upp úr hádegi. Hiti 9 til 16 stig, hlýjast norðaustanlands.

Á þriðjudag:
Suðvestlæg átt, 3-10, skýjað og smáskúrir, en bjart með köflum suðaustan til. Hiti 8 til 15 stig.

Á miðvikudag (lýðveldisdaginn):
Suðlæg átt, 3-8 m/s, skýjað með köflum og þurrt. Hiti 9 til 16 stig.

Á fimmtudag:
Suðaustanátt, skýjað og dálítil væta sunnan og vestan til, en bjartviðri norðaustanlands. Hiti 9 til 18 stig, hlýjast á Norðausturlandi.

Á föstudag:
Útlit fyrir suðaustlæga átt með lítils háttar vætu. Áfram milt í veðri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert