„Ég hef áhyggjur af því að þessar hrúgur fjúki í vetur, en ítrekað gerir þarna vestanátt og þá geta sjór og steinar gengið langt á land og inn á göngustíga,“ segir Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, við Morgunblaðið.
Vísar hún í máli sínu til grjóthrúgna sem búið er að sturta á grasblett við Eiðsgranda í Reykjavík, eitt stærsta græna svæði Vesturbæjar. Hrúgurnar hafa vakið talsverða athygli að undanförnu og verið mikið til umræðu meðal íbúa á svæðinu, sem segja litla prýði vera að mölinni. Oddviti Sjálfstæðisflokksins er einn þeirra sem óskað hafa eftir skýringum á hrúgunum og tilgangi þeirra, en borgarfulltrúi Pírata hefur sagt þær minnka viðhaldsþörf og grasslátt á vegum borgarinnar.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag bendir Elín Björk á að veður geti á veturna oft orðið hressilegt við Eiðsgranda, um og yfir 20 m/s, en við slík skilyrði getur grjót farið af stað.
„Gömlu 9 vindstigunum, sem eru 20,8-24,4 m/s, er lýst þannig að þá geta orðið lítils háttar skemmdir á mannvirkjum, varla er þá hægt að ráða sér á bersvæði og glórulaus bylur ef snjóar. Ég geri nú ráð fyrir að þegar við erum í þeirri stöðu að skemmdir verða á mannvirkjum geti möl farið af stað,“ segir hún og bendir á að við 10 vindstig rifni tré upp með rótum með hættu á talsverðum skemmdum á mannvirkjum.
Lesa má fréttina í heild sinni hér.