„Enginn gengið jafn aggresíft fram“ og Þórhildur

Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ætli það sé ekki bara best að hún bendi á það hvenær vegið hafi verið að hennar persónu. Ég hef ekki verið þekktur fyrir það að hafa uppi stóryrði um einstaka þingmenn eða aðra, það er ekki minn háttur og það hef ég ekki gert,“ segir Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og nefndarmaður í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, spurður út í þá ákvörðun Þórhildar Sunnu Ævarsdóttir, þingmanns Pírata, að segja af sér formennsku í nefndinni. 

Þór­hild­ur sagði af sér for­mennsku á Alþingi í dag og sakaði meiri­hluta nefnd­ar­inn­ar um að draga per­sónu sína niður í svaðið. 

Í bókun Óla Björns á fundi nefndarinnar 10. júní sagðist hann taka undir fyrri bókanir Brynjars Níelssonar og Þorsteins Sæmundssonar sem sögðust ekki styðja það að Þórhildur yrði formaður nefndarinnar. 

„Nú er það þannig að þessi bókun var lögð fram á fundi að gefnu tilefni vegna ásakana sem fráfarandi formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hafði haft í frammi í bókun á fyrri fundi nefndarinnar og endurtekið efnislega í fjölmiðlum og í þingsal,“ í garð sex nefndarmanna, segir Óli Björn í samtali við mbl.is. 

„Brynjar Níelsson lýsti því yfir þegar í upphafi þegar hún tók við formennsku að hún nyti ekki hans trausts. Það lá líka fyrir bókun Þorsteins Sæmundssonar, þingmanns Miðflokksins, frá því í desember um að hann treysti ekki formanni nefndarinnar. Núna eftir allt sem á undan er gengið tek ég undir þessi viðhorf. Það liggur þá fyrir að þrír nefndarmanna bera ekki traust til formannsins, segir Óli Björn.“

„Það hefur enginn sem situr á þingi í dag gengið jafn aggresíft fram með alvarlegum ásökunum á hendur nafngreindum einstaklingum og heilu flokkunum heldur en fráfarandi formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Ég fullyrði það.“

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, sagðist í samtali við mbl.is fyrr í dag gera ráð fyrir því að taka við formennsku nefndarinnar. Óli Björn segist ekki ganga út frá eða gera ráð fyrir neinu. 

„Ég geng ekki út frá neinum. Nefndin auðvitað kýs formann, það tekur það enginn frá nefndinni. Við eigum bara eftir að koma saman og nefndin tekur þá afstöðu, meðal annars á grundvelli þess sem á undan er gengið. Þetta kemur bara í ljós. Það eru engin þau mál sem liggja fyrir í nefndinni sem kalla á það að hún komi til fundar.

Ég vonast til þess að menn átti sig á því að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd gegni mikilvægu hlutverki. Þeir sem sitja í nefndinni, þá ekki síst þeir sem veita henni forystu, þurfa að nálgast viðfangsefnið af virðingu og hófsemd. Ég vonast til þess að svo verði í framtíðinni.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert