„Þetta er auðvitað ákveðið bakslag síðustu daga að einhverju leyti sem er óþægilegt og óþolandi en við verðum að gíra okkur upp, halda áfram núna og vinna þetta saman,“ segir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, um kórónuveirusmitin sem greinst hafa síðustu daga.
Tveir ferðamenn frá Rúmeníu greindust með veiruna um helgina og smitaðist einn lögreglumaður sem átti í samskiptum við þá. Þá greindust tveir við komuna til landsins í gær og þarf annar þeirra að fara í einangrun en hinn er með mótefn gegn veirunni. Alls eru sjö virk smit í samfélaginu en enginn er inniliggjandi á sjúkrahúsi.
„Það virðist vera að við séum aðeins að komast út úr logninu varðandi COVID sem við höfum verið í undanfarið. Enda höfum við sagt það að við munum fá einstaka smit og jafnvel einstaka hópsýkingar,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna í dag.
Hann segir skimunina á landamærum sem hófst í gær koma til með að veita svör um hvernig best verður að stýra komu ferðamanna hingað til lands út frá sóttvarnasjónarmiðum. „Og þannig má segja að þetta sé verkefni sem er í sífelldu endurmati,“ sagði Þórólfur.
Þá hvatti hann heilsugæsluna til að taka sem flest sýni næstu daga og vikur til að fylgjast með þróun veirunnar í samfélaginu.
Víðir sagði að áfram verði mikilvægt að byggja aðgerðir gegn útbreiðslu kórónuveirunnar hér á landi á trausti. „Við getum ekki farið í gegnum þetta án þess að byggja á því og við verðum að hjálpast að með það.“
Víðir benti á einföld sóttvarnaatriði sem skiptir miklu máli að halda í þessa dagana, þ.e. handþvott, handspritt, að þrífa sameiginlega snertifleti og ekki mæta í vinnuna ef fólk er veikt.
„Ef við höldum áfram á þeirri braut þá mun þetta ganga hjá okkur og verður áfram í okkar höndum,“ sagði Víðir.