„Eins og kórónuveiran hafi aldrei gerst“

Þá fylgi því sérstakur kostur að heimsækja landið um þessar …
Þá fylgi því sérstakur kostur að heimsækja landið um þessar mundir, þar sem ferðamenn geti setið einir að náttúruperlum sem venjulega séu umkringdar öðrum í sömu erindagjörðum. mbl.is/RAX

„Barir og veitingastaðir eru fullir af fólki. Fólk fer út og nýtur lífsins. Stórbrotnir landfræðilegir viðkomustaðir eru galopnir ferðamönnum. Hverjum sem heimsækti Ísland yrði fyrirgefið fyrir að halda að hann væri staddur í einhvers konar hliðarveruleika þar sem kórónuveiran gerðist aldrei.“

Svona hefst ítarleg forsíðuumfjöllun bandaríska fjölmiðilsins CNN um Ísland í kjölfar kórónuveirufaraldursins, en fréttamenn CNN voru með þeim fyrstu sem komu hingað til lands við opnun landamæranna 15. júní síðastliðinn.

Þar segir að fyrir fólk sem hingað komi beint frá löndum þar sem útgöngubann er í gildi geti upplifunin við að sitja á kaffihúsi iðandi af lífi verið jafnspennandi og Gullfoss. Þá fylgi því sérstakur kostur að heimsækja landið um þessar mundir, þar sem ferðamenn geti setið einir að náttúruperlum sem venjulega séu umkringdar öðrum í sömu erindagjörðum.

„Þetta er ekki vegna þess að Ísland hafi verið ónæmt fyrir kórónuveirunni,“ segir í umfjölluninni. Þvert á móti hafi faraldurinn valdi talsverðum usla í eyríkinu og í upphafi hafi smithlutfall verið hærra en víðast hvar annars staðar. Með skipulagðri sýnatöku og smitrakningu hafi hins vegar tekist að ráða bug á útbreiðslunni og dánartíðnin, 3 á hverja 100.000 íbúa, sé eitt besta merki þess hversu vel baráttan gegn kórónuveirunni hafi tekist á Íslandi.

Í umfjölluninni er m.a. rætt við Kára Stefánsson, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, og Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra um góðan árangur Íslands, en umfjöllunina í heild má lesa á vef CNN.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert