Helgi Hrafn líkir Guðmundi við Trump

Helgi Hrafn (t.v.) og Guðmundur Franklín (t.h.)
Helgi Hrafn (t.v.) og Guðmundur Franklín (t.h.) mbl.is

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, vandar Guðmundi Franklín, forsetaframbjóðanda, ekki kveðjurnar í færslu á Facebook. 

Þar segir Helgi pólitískan stíl Guðmundar líkjast um margt pólitískum stíl Donalds Trump Bandaríkjaforseta. Þá segir Helgi Hrafn að forsetatíð Guðmundar myndi einkennast af dómgreindar- og ábyrgðarleysi, fljótfærni, ofureinföldunum og skeytingarleysi gagnvart staðreyndum.

„Það er ekkert í lagi hvernig þannig stjórnmál hafa verið að færa sig upp á skaftið síðustu ár. Eina leiðin til að tryggja að þannig stjórnmál festist ekki í sessi, er með því að sem flestir kjósendur mæti á kjörstað og kjósi eitthvað annað“, skrifar Helgi Hrafn sem kveðst ætla að kjósa Guðna Th. Jóhannesson, sitjandi forseta, þó hann hafi ekki gert það síðast. 

Kemur Helga ekki á óvart

Helgi fer ófögrum orðum um Guðmund sem hann segir að hafi sýnt bæði getu- og metnaðarleysi þegar kemur að því að draga rökréttar ályktanir út frá aðgengilegum upplýsingum og rökfræði. Guðmundur virðist því taka því „fyrsta sem honum dettur í hug sem augljósum sannleika ef það passar við heimsmyndina hans“að sögn Helga Hrafns.

„Að þessu leyti minnir pólitískur stíll Guðmundar Franklín óneitanlega á stíl Donalds Trumps, sem kemur ekki á óvart miðað við að Guðmundur Franklín hefur opinberlega lýst yfir stuðningi við þann dæmalausa vitleysing og hrotta. Það er eins og að þessi týpa líti svo á að sannleikurinn sé eitthvað svo óaðgengilegt og órannsakanlegt, að skoðanir fólks séu í rauninni alveg jafn gildar og staðreyndir. Það er vitaskuld misskilningur“, skrifar Helgi Hrafn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert