Hröð atburðarás í Sóttvarnahúsinu

Atburðarás vikunnar hefur verið hröð fyrir starfsfólk Sóttvarnahússins á Rauðarárstíg. Þar eru nú 17 erlendir gestir sem er tveimur meira en var þegar mest lét á hápunkti faraldurs kórónuveirunnar. Tveir gestanna eru með virk smit og eru því í einangrun.

Gylfi Þór Þorsteinsson er umsjónarmaður Sóttvarnahússins sem Rauði Krossinn heldur utan um. Hann segir hlutina hafa gerst full hratt fyrir sinn smekk í vikunni en að starfsfólkið sé við því búið að bregðast hratt við. „Ég held að það komi einhverjar sjö vélar í dag [til landsins] til dæmis. Við vitum ekkert hvort einhver þar þurfi að koma hingað eða ekki. Þannig að við erum alltaf viðbúin því að þurfa að bregðast við,“ segir Gylfi Þór en yfirleitt eru 5-10 starfsmenn við  störf í húsinu þar sem 72 herbergi eru til reiðu.

Parið sem er í einangrun vegna virks Covid-19 smits er einnig grunað um afbrot hér á landi. Spurður út í öryggislgæslu í húsinu segir Gylfi að öryggi sé alltaf í forgangi til að tryggja sóttvarnir og öryggi starfsfólks og sjálfboðaliða. Myndavélar séu á öllum göngum og öryggisverðir séu alltaf til staðar, það hafi alltaf verið raunin. 

Í myndskeiðinu er rætt við Gylfa Þór um þessa viðburðaríku fyrstu daga í húsinu eftir að þar var opnað að nýju.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert