„Sem listrænn stjórnandi Sumartónleikaraðar Listasafns Sigurjóns Ólafssonar til margra ára sé ég mig knúna til að tilkynna ykkur að sumartónleikaröðin verði ekki haldin í ár, eins og undanfarin 31 ár. Ástæðan er ekki Covid-19 faraldurinn heldur áhugaleysi þeirra, sem taka ákvarðanir um starfsemi Listasafns Sigurjóns Ólafssonar.“
Svo hljóðar auglýsing sem birtist í Morgunblaðinu í dag, fimmtudaginn 18. júní, en auglýsinguna skrifaði Hlíf Sigurjónsdóttir, fiðluleikari og dóttir Sigurjóns Ólafssonar.
„Það er ekkert launungarmál að hér hafi verið í gangi hlutir sem okkur fjölskyldunni hefur ekki hugnast,“ sagði Hlíf við mbl.is í dag, en Morgunblaðið greindi frá því í gær að sumartónleikaröð Listasafns Sigurjóns Ólafssonar yrði ekki haldin í sumar. Tónleikaröðin hefur verið haldin árlega í þrjátíu og eitt ár, en Listasafn Sigurjóns Ólafssonar hefur verið rekið sem deild innan Listasafns Íslands síðan 2012.
Í frétt Morgunblaðsins í gær segir Anna Guðný Ásgeirsdóttir, fjármála- og mannauðsstjóri Listasafns Íslands að tónleikaröðin hafi frá upphafi verið í höndum fjölskyldu Sigurjóns Ólafssonar en haldin með velvilja Listasafns Íslands. Hafi fulltrúi fjölskyldunnar, sem séð hafi um skipulag og undirbúning tónleikanna síðustu ár, ekki treyst sér til að standa fyrir tónleikunum í sumar og að ekki hafi verið sótt um styrki til að halda þá.
Geirfinnur Jónsson, eiginmaður Hlífar hefur að mestu leyti séð um umstangið í kringum tónleikana. Í fyrra sá hann sig knúinn til að vinna að tónleikunum utan venjulegs vinnutíma, en Geirfinnur starfar sem umjónarmaður fasteigna- og öryggismála hjá Listasafni Íslands.
Hlíf segir sumartónleikana vera aðeins toppurinn á ísjakanum. „Ég, sem aðstandandi móður minnar [Birgittu Spur, ekkju Sigurjóns], er svo rasandi yfir því hvernig hefur verið komið fram við hana og hvernig er búið að sýna þessum stað mikla óvirðingu.“