Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir bauð til lítils fjölskylduboðs á heimili sínu á þjóðhátíðardaginn í gær eftir að hafa verið sæmdur heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu.
Faðir hans, Guðni B. Guðnason, fyrrverandi kaupfélagsstjóri, lét sig ekki vanta. Hann er fæddur árið 1926 og varð 94 ára 1. apríl.
Að sögn Guðna B. Guðnasonar, þ.e. bróður Þórólfs sem er alnafni föður síns, var Guðni eldri hinn hressasti í veislunni.
„Hann er 94 ára í hörkuformi. Hann var mjög glaður og stoltur af stráknum,“ segir Guðni um föður sinn, en það var Guðni sem birti myndina af þeim feðgum í hópi Eyjamanna á Facebook, þar sem peyjarnir vöktu mikla lukku.
Guðni eldri var kaupfélagsstjóri víða um land á árum áður, á Hvolsvelli, Eskifirði og í Vestmannaeyjum. Á síðastnefndum stað ólst Þórólfur upp allt til nítján ára aldurs, eftir að hafa slitið barnsskónum á Eskifirði.
Þórólfur sjálfur kvaðst á blaðamannafundi í dag vera stoltur af viðurkenningunni. „Ég tel að þessi viðurkenning, sem ég er mjög stoltur yfir, sé fyrir hönd alls þess hóps sem starfar með okkur,“ sagði Þórólfur en áréttaði að viðurkenningin haldi ekki fyrir honum vöku eða breyti hugsanagangi hans.