Yfirlýsingin „hefur nákvæmlega ekkert vægi“

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra telur Félag prófessora við ríkisháskóla hafa „fallið á prófinu“ er það gagnrýndi harðlega aðkomu Bjarna að ráðningu í starf ritstjóra norræna fræðatímaritsins Nordic Economic Policy Review, en fjármálaráðuneytið kom í veg fyrir að Þorvaldur Gylfason yrði skipaður í stöðuna. Yfirlýsing félagsins hafi „nákvæmlega ekkert vægi inn í þetta mál“. Ekki sé tekið tillit til ólíkra sjónarmiða og allar hliðar málsins ekki ígrundaðar, sagði Bjarni.

Þá ítrekaði hann að málið hefði ekki ráðist á pólitískum forsendum, þrátt fyrir að hafa áður sagt að „að [Þorvaldur] kæmi ekki til greina, enda [teldi Bjarni] að sýn og áhersl­ur Þor­vald­ar Gylfa­son­ar í efna­hags­mál­um geti eng­an veg­inn stutt við stefnu­mót­un [fjármálaráðuneytisins]“.

Þorvaldur Gylfason hagfræðingur.
Þorvaldur Gylfason hagfræðingur. mbl.is/Ómar Óskarsson

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, hóf umræðu um ráðningarmálið í óundirbúnum fyrirspurnarlið á Alþingi í morgun. Benti Þórhildur á gagnrýni prófessorafélagsins og eins Lars Calmfors, fyrrverandi ritstjóra, en í viðtali við sænska blaðið Dagens Nyheter lýsir hann áhyggjum sínum af aðkomu Bjarna. „Þetta fjallar um fræðilegan hagfræðing, vel hæfan til verksins. Að stoppa hann af pólitískum ástæðum er einfaldlega rangt,“ sagði Calmfors í viðtalinu.

Bjarni gaf ekki mikið fyrir orð prófessorsins sænska. „Það skiptir engu máli hver hans upplifun er,“ sagði Bjarni og bætti við að svo virtist sem sá sænski hefði haft áhrif á að staðan var boðin Þorvaldi án þess að Íslendingar væru spurðir álits. Alvarlegt væri að menn væru að véla á slíkan hátt með stöður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert