Skimað verður þótt komi til verkfalls

Hjúkrunarfræðingar sjá ekki um sýnatökurnar sjálfir, heldur gerir það sérhæft …
Hjúkrunarfræðingar sjá ekki um sýnatökurnar sjálfir, heldur gerir það sérhæft starfsfólk undir handleiðslu hjúkrunarfræðinga og lækna. Morgunblaðið/Íris

Skimun verður haldið gangandi á Keflavíkurflugvelli þó að til verkfalls komi hjá hjúkrunarfræðingum. Von er á tíu flugvélum til landsins á morgun.

Hjúkrunarfræðingar eru um helmingur þess starfsfólks sem komið hefur að skimunum frá því faraldurinn hófst og eru um helmingur fagfólks sem kemur að skimun á Keflavíkurflugvelli. Hjúkrunarfræðingar sjá þó ekki um sýnatökurnar sjálfar, heldur gerir það sérhæft starfsfólk undir handleiðslu hjúkrunarfræðinga og lækna.

Þetta segir Jórlaug Heimisdóttir, fulltrúi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í skimunarverkefninu á Keflavíkurflugvelli, í samtali við mbl.is. Nái hjúkrunarfræðingar og ríkið ekki saman á fundi sínum hjá ríkissáttasemjara í dag skellur verkfall á klukkan 8 í fyrramálið.

Samsettur hópur

557 farþegar voru komnir með fimm vélum þegar mbl.is heyrði í Jórlaugu á sjöunda tímanum í kvöld og von var á um 400 til viðbótar í kvöld. Jórlaug segir skimunina í dag hafa gengið vel. „Það mun klárlega hafa einhver áhrif ef hjúkrunarfræðingar detta út,“ segir Jórlaug.

Undir þetta tekur, Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, forstjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. „Verkefnið er þannig upp byggt að það koma að þessu bæði stofnanir, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, en svo eru líka hjúkrunarfræðingar frá einkareknum fyrirtækjum sem fara þá ekki í verkföll og við erum með lækna sem fara ekki í verkfall.“

„Þetta er samsettur hópur, en að sjálfsögðu mun verkfallið samt hafa áhrif. Það mun örugglega ekki hægja á, en við getum haldið sýnatökunni opinni, gangandi.“

Ragnheiður segir áhrifin veruleg á alla heilsugæsluna og ekki bara skimunina. „Það er svo fjölbreytt starfsemi innan heilsugæslunnar sem hjúkrunarfræðingar koma að.“

Unnið er að undanþágubeiðnum vegna starfsemi heilsugæslunnar þar sem leitast er við að tryggja neyðarþjónustu, auk viðkvæmrar þjónustu eins og heilsugæslu í fangelsum og geðheilsuteymi. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert