Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, furðar sig á orðum Þórdísar Lóu Þórhallsdóttur, formanns borgarráðs, í pistli sem hún birti á Facebook í dag.
„Hún segir rekstur borgarinnar sérlega blómlegan og kannast ekkert við þá neyðaraðstoð sem Reykjavíkurborg hefur óskað frá ríkinu – neyðaraðstoð sem fjallað var um í sérstakri umsögn borgarinnar til Alþingis nýverið,“ skrifar Hildur.
Í Facebook-færslu furðar Hildur sig á því að Þórdís kannist ekki við neyðaraðstoð sem Reykjavíkurborg hefur óskað eftir frá ríkinu, sem fjallað var um í umsögn borgarinnar til Alþingis nýverið, þar sem óskað var eftir fjárhagsstuðningi ríkisins við sveitarfélög vegna kórónuveirufaraldursins.
Þórdís hafði gagnrýnt Hildi Björnsdóttur og stefnu Sjálfstæðisflokksins í pistli sem hún birti á Vísi nýverið, og lýsti fjárhagi borgarinnar sem góðum og traustum. Þá taldi hún Hildi hafa sett „einhvers konar met í dylgjum og ósannindum“, þegar Hildur gerði athugasemdir við rekstrarhalla borgarinnar.
Með umsögninni fylgja niðurstöður starfshóps um aðgerðir í efnahags- og fjármálum vegna áhrifa af kórónuveirufaraldrinum á fjármál borgarinnar. Í niðurstöðukafla starfshópsins, sem fjallar um aðkomu ríkisins að fjármögnunarvandanum segir:
„Reykjavíkurborg fær að líkindum þyngri skell en flest önnur sveitarfélög: Í fyrsta lagi verður tekjuhrun í útsvarstekjum vegna mikils atvinnuleysis og eignatekjur vegna byggingarréttar og gatnagerðargjalda skreppa saman um marga milljarða.“
„Ef aðeins hefði verið um að ræða skammvinnan vanda, 3 til 6 mánaða niðursveiflu með skjótu bataferli, hefði mögulega dugað að ríkið styddi við lausn fjármögnunarvandans með lánveitingum á hagkvæmum 12 kjörum.“
Þá er birt tafla sem sýnir, að mati starfshópsins, að rekstur borgarinnar sé með neikvætt veltufé frá rekstri á árunum 2020-2022 og standi ekki undir afborgunum af langtímalánum árin 2020-2023.