Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður Pírata ávarpaði meðal annars hjúkrunarfræðinga, fiskverkakonur, ljósmæður, öryrkja, aldraða, fatlaða, innflytjendur og flóttafólk í ræðu sinni í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í kvöld.
Hún sagði valdhafa og þá ríkisstjórn sem er við völd senda skilaboð á þá leið að aðeins þau sem eru valdinu þóknanleg fái að tilheyra samfélaginu Íslandi. Hinum sé ekki boðið. Þórhildur sagði þó að unnt væri að rísa upp gegn þessu ástandi.
„Þessi villuljós valdhafanna eru einungis vopn í höndum þeirra á meðan við leyfum þessu að viðgangast. Því klíkan er smá, sem allt á og má. Og hún má sín lítils þegar allir þessir hópar sem valdhafar hafa jaðarsett og ýtt út í kuldann átta sig á stærð sinni og krafti. Þetta sést vel á nýlegum sigrum láglaunafólksins sem virkjaði samtakamáttinn,“ sagði þingmaðurinn.
Hún ávarpaði því öll „sem haldið er úti í kuldanum“ jafnt á ensku, pólsku, filippseysku og víetnömsku: „You belong here. Bāh̄̒n khuṇ xyū̀ thī̀ nī̀. Wasz Dom jest tutaj. Dito ang bahay nyo. Eða á íslensku: Þið eigið heima hér. Því við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag, þar sem allir sitja við sama borð þar sem ólíkur uppruni okkar auðgar heildina.“
Þórhildur sagði kerfisbundinn rasisma viðgangast á Íslandi, ekki síður en vestanhafs. Hann birtist í nýju frumvarpi um útlendingamál, brottvísun flóttamanna úr landi og „í gleði lögreglunnar yfir nýja landamærabílnum sínu, sem hún ætlar að nota til að stoppa bíla með fólki sem lítur út eins og útlendingar til þess að, með leyfi forseta, „athuga hvort þeir séu þeir sem þeir segjast vera.““
Þórhildur ítrekaði að á Íslandi sætu ekki allir við sama borð, heldur væri stundum sem hér byggju tvær þjóðir.
„Annars vegar situr þar arðræninginn á skrifstofunni og hlær, því línuritið sýnir að afköstin eru meiri í dag en í gær. Hins vegar er þar konan, sem staðið hefur við vélina síðan í gær, með blóðuga fingur og illa lyktandi tær,“ sagði Þórhildur.
„Sumir fá að græða á daginn og grilla á kvöldin en aðrir mega aldrei eiga neitt,“ hélt Þórhildur áfram.