Boðar harðan verkalýðsvetur

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir að ríkisstjórnin megi búa …
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir að ríkisstjórnin megi búa sig undir harðan verkalýðsvetur. mbl.is/Hari

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir forsendur lífskjarasamningsins fallnar á vanefndum ríkisstjórnarinnar. Í færslu á Facebook-síðu sinni segir hann að ríkisstjórnin megi búa sig undir harðan verkalýðsvetur. 

„Vetur þar sem verkalýðshreyfingin mun uppfæra kröfugerðina í samræmi við allt aðrar forsendur en voru fyrir gerð lífskjarasamningsins. Harðan vetur í boði Sjálfstæðisflokksins og ríkisstjórnar hans,“ skrifar Ragnar. 

Bjarni Benediktsson sagði í síðasta mánuði að forsendur lífskjarasamningsins stæðu tæpt sökum áhrifa kórónuveirunnar. Ráðherra var spurður út í orð sín í viðtali á RÚV í gær en sagðist hann hafa meiri áhuga á því að finna út úr því hvernig unnt sé að bjarga störfum og efla efnahagslífið. 

Ragnar segir að af orðum Bjarna megi lesa að „ríkisstjórnin telji enga þörf á að efna sinn hluta lífskjarasamningsins vegna þess að staðan sé svo gjörbreytt og forsendur allt aðrar en lagt var upp með í aðdraganda samningsins.“ 

Ragnar gagnrýnir ríkisstjórnina fyrir hlutdeildarlán og segir fjármálaráðherra svo einbeittan í að þynna út úrræðið og „eyðileggja þessa þörfu og góðu vinnu, sem hefði komið fjölskyldum og byggingafyrirtækjum svo vel, að hlutdeildarlánin eiga að bera vexti ef fólk hækkar í launum.“ Segir hann hlutdeildarlánin skipa sér í sess með óhagstæðustu lánaformum Íslandssögunnar, fjármögnuð með niðurskurði á raunverulegum húsnæðisstuðningi.




mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert