Ragnheiður Elín Árnadóttir mun ekki stýra Evrópsku kvikmyndaverðlaununum í Reykjavík 2020, eins og stóð til. Hún hefur sagt upp störfum sem verkefnastjóri, staðfestir hún við mbl.is. Starfslokin eru að hennar frumkvæði, segir hún.
Ragnheiður vildi ekki greina nánar frá ástæðum uppsagnar sinnar. Fréttablaðið greindi fyrst frá uppsögninni.
Ragnheiður var ráðin til starfsins í júlí í fyrra, en 45 höfðu sótt um stöðuna. Helstu verkefnin sem hún átti að sinna voru að leiða saman samstarfsaðila, halda utan um samningagerð, afla styrkja, og vinna drög að styrktar- og kynningarstefnu verkefnisins.
Verðlaunahátíðin verður haldin í Hörpu í desember, en hún er haldin annað hvert ár í Berlín til skiptis við aðrar borgir í Evrópu.