Tekur tíma að átta sig á embættinu

Guðni Th. Jóhannesson forseti var gestur í Kastljósi í kvöld, og var hann spurður út í nokkur af þeim málum sem vakið hafa athygli á hans fyrsta kjörtímabili sem forseti Íslands.

Hann var spurður um staðfestingu tillögu ráðuneytisins á uppreist æru tveggja kynferðisafbrotamanna. Málið olli miklu fjaðrafoki þegar það kom upp, og hefur Guðni viðurkennt mistök sín við meðhöndlun þess. „Hvers vegna undirritaðir þú þessi skjöl án þess að kanna hvort það samræmdist þinni samvisku,“ spurði Einar Þorsteinsson, kynnir Kastljóss.

Guðni segist hafa fylgt þeim fordæmum sem giltu um ákvörðun um uppreist æru. Aldrei hafi komið til þess að forseti staðfesti ekki slíkar tillögur. Hann segist þó að ekki ætla að skýla sér á bak við það að vera ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum.

„Þvert á móti ákvað ég að við þetta yrði ekki unað og einhverju yrði að breyta hér,“ sagði Guðni. „Ég bað þær stúlkur sem brotið var á að koma á minn fund og sagði við þær ættu ekki að þurfa að þola það að þeir sem að á þeim brutu fengu uppreist æru,“ heldur hann áfram.

„Ég var ekki fyrsti forsetinn til að staðfesta ákvörðun ráðuneytis um uppreist æru, en ég var sá síðasti.“

Hvert mál lýtur eigin lögmálum

Þá var Guðni spurður út í málskotsréttinn, og hvað þurfi til þess að hann synji lögum staðfestingar.

Segir Guðni hvert mál lúta sínum eigin lögmálum og að það væri óskynsamlegt fyrir forseta að segja fyrir fram hvað þyrfti til að hann synji lögum staðfestingar.

„Frekar eigum við að horfa til þess sem nefnt hefur verið og er ríkur vilji til, að setja í stjórnarstrá það ákvæði að tiltekinn fjöldi kjósenda geti krafist þjóðaratkvæðis um umdeild mál.“ Hann segir þá að ríkur og ótvíræður vilji þurfi að vera fyrir hendi ef málskotsrétturinn skyldi verða nýttur.

Forsetafrú eigi ekki að vera ósýnileg

Guðni var spurður út í gagnrýni sem hann og kona hans, Eliza Reid, hafa fengið á sig vegna starfa Elizu fyrir Íslandsstofu. Tíðkast hefur að forsetafrú vinni að hinum ýmsu málum í þágu forsetaembættisins, og taki þá ekki laun fyrir.

„Við erum uppi á 21 öld. Það á ekki að þykja gagnrýnivert að maki forseta vinni úti. Sú tíð er liðin að húsfreyjan á Bessastöðum eigi að vera ósýnileg, nema þá sjaldan að tigna gesti ber að garði og hún er þá við hlið mannsins síns.“

Hann sagði þá að Eliza hafi stofnað fyrirtæki í september 2008, „sem kannski eftir á hyggja var ekki rétt tíminn,“ sagði Guðni. Hún hafi þá þurft að hætta að vinna fyrir suma viðskiptavini sína eftir kjör Guðna.

„En að hún ætti bara að hætta að vinna úti vegna þess að karlinn hennar sé kominn með nýtt starf. Við höfum síðastliðin ellefu ár, við Íslendingar, trónað á toppi mælikvarða um kynjajafnrétti, og við, trúi ég, ætlum ekki að krefjast þess að ef karl nái kjöri sem forseti íslands, þurfi kona hans að hætta að vinna,“ sagði Guðni.

Mælist með 93% fylgi

Aðspurður um hvert mark hans á forsetaembættið gæti orðið, svaraði Guðni að hann hafi sívaxandi áhuga á að láta gott af sér leiða í lýðheilsu og forvörnum.

Hann bendir þá á að Vigdís Finnbogadóttir hafi gegnt embættinu í sextán ár og Ólafur Ragnar Grímsson hafi gegnt því í tuttugu ár, en hann hafi aðeins setið í embætti í tæp fjögur ár. „Fyrir hvern forseta, alla forseta sem á undan mér hafa setið á Bessastöðum, tekur það dálítinn tíma á að átta sig á því tigna embætti menn hafa fengið.“

Sam­kvæmt nýj­asta þjóðar­púlsi Gallup, sem birtur var í gær, ætla rúmlega 93% þeirra sem taka afstöðu að kjósa Guðna, á meðan tæplega 7% ætla að kjósa Guðmund Franklín Jónsson. Nær 98% kvenna kysu Guðna á móti um 89% karla.

53% þeirra sem kysu Miðflokk­inn segj­ast myndu kjósa Guðmund, en 94% - 99% þeirra sem kysu Sjálf­stæðis­flokk­inn, Sam­fylk­ing­una, Fram­sókn­ar­flokk­inn, Viðreisn, Vinstri Græn eða Pírata segj­ast myndu kjósa Guðna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert