Fólki í sóttkví hefur fjölgað síðustu daga og er nú 379, þar af eru um 300 sökum smits sem greindist nýlega á höfuðborgarsvæðinu. Níu af þeim sem eru í sóttkví nú eru búsettir eða dvelja á Austurlandi.
Fram kemur í tilkynningu frá aðgerðastjórn lögreglunnar á Austurlandi að allir níu hafi farið í sýnatöku og ættu niðurstöður um smit að liggja fyrir síðar í dag. Frá því að kórónuveirufaraldurinn braust út á Íslandi í lok febrúar hafa aðeins átta smit greinst á Austurlandi og 39 þurft að fara í sóttkví.
Aðgerðastjórnin lítur á þessa stöðu sem alvarlega samfélagslega áminningu um að faraldurinn sé ekki horfinn og „að brýnt sé að við öll saman herðum tökin í baráttunni við COVID-19“.
Því minnir aðgerðastjórnin einstaklinga, veitinga- og gistihúsaeigendur, félagasamtök, íþróttafélög, fyrirtæki, þjónustuaðila og aðra á að líta í eigin barm og meta hvort hjá viðkomandi sé enn rétt staðið að sóttvörnum. Í því sambandi má nefna:
– held ég mig heima ef ég er með einkennin umtöluðu?
– veiti ég mér og öðrum rými til að virða 2 m regluna?
– nota ég handþvott og spritt af árvekni?
– eru sprittbrúsar til taks og á þá fyllt?
– er strokið af sameiginlegum snertiflötum?
– stend ég fyrir samkomuhaldi, þ.á m. íþróttaviðburðum, sem hugsanlega væri rétt að aflýsa?