Bifhjólasamtök lýðveldisins, Sniglar, hafa boðað til mótmæla við húsnæði Vegagerðarinnar í Borgartúni í kjölfar umferðarslyss á Kjalarnesvegi í gær þar sem tveir létust.
Mótmælin, sem hefjast klukkan 13 á morgun, verða þögul en sterk, að því er segir í viðburðalýsingu. Þar verður þess krafist að Vegagerðin geri úrbætur á þeim vegköflum sem skapað hafa mikla hættu víðsvegar um landið.
Umferðarslys varð á Kjalarnesvegi á fjórða tímanum í gær þar sem bifhjól lenti framan á húsbíl. Ökumaður og farþegi voru á bifhjólinu, auk þess sem annað bifhjól sem kom aðvífandi lenti utan vegar. Ökumaður og farþegi bifhjólsins sem lenti framan á húsbílnum létust.
Aðstæður á veginum voru erfiðar og hefur Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, lýst því svo í samtali við mbl.is að malbikið hafi verið „nánast eins og skautasvell“, en nýtt slitlag var á veginum.
Lögreglan og rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsaka tildrög slyssins, en ekki er grunur um ógætilegan akstur eða hraðakstur í aðdraganda þess.
Fréttin hefur verið uppfærð með réttri tímasetningu.