Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir hópsýkingu sem greindist um helgina og rekja má til knattspyrnukonu sem kom hingað til lands frá Bandaríkjunum vísbendingu um hve hratt smit geti farið úr böndunum.
Á upplýsingafundi almannavarna í dag sagði Þórólfur að erfiðara væri að ráða við smit hjá Íslendingum. Því gæti verið mikilvægara að setja Íslendinga í sóttkví en aðra.
Þórólfur segir að almenningur virðist vera minna mótækilegur núna en þegar veiran kom fyrst upp fyrir þeirri hættu sem stafar af veirunni. Hann vill þó ekki kalla ný smit vegna hópsýkingar aðra bylgju veirunnar. „Við erum í öðrum leik en við vorum,“ segir Þórólfur.
Verið er að vinna að og skoða opnun landamæra utan Schengen. Almannavarnir eru tilbúnar að bregðast við ýmsum sviðsmyndum varðandi það.
Þórólfur sagði á fundinum að ekki skipti nokkru máli hvaðan veiran hefði komið fyrst til landsins, það væri aukaatriði. Hann segir sýkinguna sem knattspyrnukonan greindist með koma frá Bandaríkjunum, hún hafi því ekki sýkst hér á landi.