Neyðarstjórn borgarinnar fundar vegna hópsýkingar

Neyðarstjórn Reykjavíkurborgar var kölluð saman í morgun til að ræða …
Neyðarstjórn Reykjavíkurborgar var kölluð saman í morgun til að ræða hópsýkingar kórónuveirunnar á höfuðborgarsvæðinu. Ljósmynd/Facebook

Neyðarstjórn Reykjavíkurborgar kom saman á fundi í morgun að frumkvæði Dags B. Eggertssonar borgarstjóra. Tilefnið var innanlandssmit kórónuveiru sem greinst hafa á höfuðborgarsvæðinu síðustu daga og mögulegar hópsýkingar.

Töluvert er síðan neyðarstjórnin kom síðast saman en borgarstjóri sá tilefni til að kalla hana saman í morgun. „Þetta er í samræmi við viðbragðsáætlanir borgarinnar og undirstrikar að taka þarf þá þróun sem birst hefur í fréttum undanfarið alvarlega þótt hópsýking þurfi í sjálfu sér ekki að koma á óvart,“ segir Dagur í færslu á facebooksíðu sinni. 

Neyðarstjórn velferðarsviðs var einnig kölluð saman í morgun og mun yfirfara og herða reglur um heimsóknir á öldrunarstofnanir og ef til vill aðrar aðgerðir til að vernda viðkvæma hópa. Þetta verður nánar tilkynnt um leið og það liggur fyrir.

Á fundinum var ýmislegt rætt og verður upplýsingum miðlað til starfsfólks og starfsstaða borgarinnar í dag þar sem minnt er á almennar einstaklingsbundnar smitvarnir og aðra aðgát, svo sem aukin þrif.

Þá hafa sérstakar leiðbeiningar og spurningalistar verið útbúin vegna starfsfólks sem er að koma til vinnu frá öðrum löndum, þannig að hægt sé að meta hvenær því er óhætt að mæta til vinnu.

„Til upprifjunar þá eru almannavarnir ekki lengur á neyðarstigi  en við erum á hættustigi. Þetta þýðir að Reykjavíkurborg og yfirstjórn borgarinnar heldur stöðugt vöku sinni yfir ástandinu og metur það á hverjum tíma og grípur til þeirra aðgerða í samráði við almannavarnir, sóttvarnarlækni og á vettvangi neyðarstjórnar borgarinnar,“ skrifar Dagur.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert