Yfirlögn á malbiki uppfyllti ekki skilyrði

Nýtt slitlag er á vegkaflanum þar sem slysið varð síðdegis …
Nýtt slitlag er á vegkaflanum þar sem slysið varð síðdegis í gær. Vegagerðin telur að klæðningin hafi ekki uppfyllt skilyrði og mun funda með verktökum í dag vegna málsins. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Yfirlögn á vegarkafla á Kjalarnesi, þar sem tveir létu lífið þegar bifhjól og húsbíll skullu saman í gær, uppfyllti ekki skilyrði að mati Vegagerðarinnar. „Við lítum þetta gríðarlega alvarlegum augum og höfum nýtt tímann frá slysinu til að fá heildarmynd á þessa framkvæmd,“ segir Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, í samtali við mbl.is. 

Um er að ræða yfirlögn á slitlagi á beinum vegkafla á Vesturlandsvegi við Kjalarnes. Tveir verktakar sáu um framkvæmdina, annar lagði yfirlögnina og annar sem hafði eftirlit með því. Þegar verkinu lauk skömmu fyrir helgi voru settar upp viðeigandi merkingar um hálku sökum nýs slitlags. 

„Svo eru samverkandi þættir, hiti og regn sem gerir þetta enn þá hálla. Það er okkar mat að þessi yfirlögn hafi ekki verið innan marka en við erum að skoða það. Við munum fara ofan í þennan atburð og í framhaldinu okkar verkferla og sjá hvort að það er eitthvað sem við getum gert til að hafa þetta farsælla,“ segir Bergþóra, sem á fund með verktökunum eftir hádegi. 

Umferðarslys varð á Kjalarnesvegi á fjórða tímanum í gær þar …
Umferðarslys varð á Kjalarnesvegi á fjórða tímanum í gær þar sem bifhjól lenti framan á húsbíl. Ökumaður og farþegi bifhjólsins létust. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

„Við erum slegin“

Fjölmargir vegfarendur höfðu samband við lögreglu og Vegagerðina í gær vegna aðstæðna á vegarkaflanum og bárust Vegagerðinni að minnsta kosti þrjú símtöl áður en slysið varð. Bergþóra segir að Vegagerðin hafi fengið lítið ráðrúm til að bregðast við þeim ábendingum. „Þetta gerðist mjög hratt og við erum slegin eins og landsmenn allir án efa.“ 

Lög­regl­an á höfuðborg­ar­svæðinu og rann­sókn­ar­nefnd sam­göngu­slysa rann­saka til­drög slyss­ins. Aðstæður vegar­kafl­ans eru sér­stak­lega til skoðunar og sagði Ásgeir Þór Ásgeirs­son, yf­ir­lög­regluþjónn hjá lög­regl­unni á höfuðborg­ar­svæðinu, í sam­tali við mbl.is í gær­kvöld að mal­bikið hefði verið „nán­ast eins og skauta­svell“.

Bergþóra segir slysið sýna að full ástæða er til að rýna í verkferla Vegagerðarinnar varðandi framkvæmdir. Fyrsta skrefið verðu að fara yfir alla vegarkafla þar sem nýtt slitlag hefur verið lagt undan farið. „Það er allt undir í okkar skoðun,“ segir Bergþóra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert