Jarðvari hafi komið í veg fyrir flugslys

Vélin var aðeins 221 feti (67 metrum) frá jörðu þegar …
Vélin var aðeins 221 feti (67 metrum) frá jörðu þegar hætt var við lendingu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur birt lokaskýrslu sína um alvarlegt flugatvik sem átti sér stað í aðflugi vélar Icelandair að Keflavíkurflugvelli 19. október 2016. Vélin var á leið frá Glasgow í Skotlandi með 113 farþega innanborðs.

Í skýrslunni er lýst hvernig röð atvika leiddi til þess að flugvélin fylgdi ekki auglýstu aðflugssniði og var flogið of lágt miðað við fjarlægð frá flugbraut. Mikil úrkoma var í Keflavík og sáu flugmenn ekki til jarðar þegar þeir komu niður úr skýjunum. Einnig stóðu yfir framkvæmdir á vellinum sem ollu röskun á hefðbundnum aðflugsleiðum.

Atburðarásin leiddi til þess að sjálfvirkur jarðvari vélarinnar gaf frá sér viðvörun sem varð til þess að flugmenn vélarinnar hættu við aðflugið og hófu brottflug, en vélin var aðeins 67 metrum frá jörðu þegar henni var snúið við eftir að TERRAIN-viðvörunarkerfi vélarinnar hafði farið í gang. Telur nefndin að „viðvaranir frá framsýnum jarðvara hafi komið í veg fyrir flugslys“.

Í skýrslunni kemur fram að rannsóknin hafi gefið til kynna að flughermir, sem notast var við í verklegri þjálfun, hafi ekki hermt rétt eftir hegðun Boeing 757-flugvéla, líkt og flogið var, í aðflugi undir svokallaðri svæðisleiðsögu (RNAV). Flugstjórinn hafi ekki verið viss um hvort flugmenn flygju rétt aðflug og telur nefndin líklegt að flugstjórinn hafi misst yfirsýn yfir aðflugið á örlagastundu þar sem hann þurfti að handvelja flug- og fallhraða.

Hliðarvindur nálægt leyfilegu hámarki

Við undirbúning flugsins hafði verið ljóst að hliðarvindur í Keflavík var að nálgast það hámarks sem leyfilegt er samkvæmt handbókum flugrekandans og ræddu flugmenn um það hvort þeir ættu að bíða veðrið af sér í Glasgow. Úr varð að vélin fór í loftið á áætlun enda átti veður, samkvæmt veðurspá, að versna eftir því sem leið á daginn.

Isavia tilkynnti atvikið til rannsóknarnefndar samgönguslysa morguninn eftir, en þá hafði hvorki Icelandair né áhöfn tilkynnt það. Rannsóknarnefndin gerir athugasemd við það og bendir á að í reglugerðum og lögum um rannsókn samgönguslysa beri að tilkynna alvarleg flugatvik og flugslys til nefndarinnar „án undandráttar og án ástæðulausrar tafar“. Þar sem það hafi ekki verið gert reyndist ekki unnt að tryggja hljóðupptökur hljóðrita flugvélarinnar af atviknu, sem varð til þess að rannsóknin er takmörkuð varðandi samskipti í flugstjórnarklefanum.

Í skýrslunni kemur fram að Icelandair hafi þegar gripið til ýmissa ráðstafana vegna atviksins. Farið hafi verið yfir þjálfun flugmanna vegna hæfisbundinnar leiðsögu, auk þess sem handbók félagsins hefur verið uppfærð með tilliti til athugasemda rannsóknarnefndarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

  • Engin mynd til af bloggara Freysteinn Guðmundur Jónsson: Isavia
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert