Á miðvikudaginn fyrir rúmri viku, 24. júní, sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir að 13. júlí stæði til að slaka verulega á fjöldatakmörkunum á Íslandi, úr 500 manna hámarki í 2.000 manna hámark. Á sama blaðamannafundi tilkynnti hann einnig að rýmri reglur um afgreiðslutíma skemmtistaða væru til skoðunar.
Margir tóku gleði sína, kannski ekki síst fólk sem hefur lifibrauð sitt af mannmörgum skemmtunum hvers konar, og það var ástæða til. Veiran hafði verið í stöðugri rénun um margra vikna skeið og ekki sá fyrir endann á því niðurlægingarskeiði hennar. Endinn reyndist þó handan við hornið, því strax tveimur dögum síðar var sagt frá fyrsta innanlandssmitinu í langan tíma, og árangrinum margumtalaða var teflt í tvísýnu.
Þórólfur var fljótur að gefa það út að þessi atburðarás gæti leitt til þess að fyrirhuguðum afléttingum yrði slegið á frest og í hönd fór nokkurra daga tímabil þar sem ekki var ljóst hvað myndi gerast 13. júlí. Nú er ljóst orðið að 13. júlí stendur ekki til að breyta nokkrum sköpuðum hlut, hvorki fjöldahámarki né afgreiðslutímum á börum. 500 mega enn koma saman og það er óheimilt að vera með opið til lengur en ellefu.
Skimun sem hófst á landamærunum 15. júní, sem losaði fólk undan sóttkvíarskyldunni, varð í upphafi ekki til þess að spilla fyrir áformum um 2.000 manna samkomur. Smit sem komu inn í landið þá leið urðu raunar ekki að vandamáli fyrr en það voru Íslendingar sem sluppu í gegnum eftirlitið á flugvellinum, þar sem próf geta misst af smiti ef það er nógu nýtt.
Nýju skimunarkerfi fylgdi líka nýr ruglingur sem bættist ofan á ruglinginn um samkomutakmarkanirnar. Tölur yfir smit dagsins eru orðnar flokkaskiptar, þar sem fyrst koma nettó greind smit og síðan er í næstu umferð tilgreint hvort þau hafi verið virk eða ekki. Það tekur Landspítalann um 6-8 klukkustundir að fá úr því skorið með mótefnamælingu hvort einstaklingar sem greinast með erfðaefni veirunnar í hálsi séu raunverulega smitandi.
Nú á síðan að koma á fót tvöföldu kerfi fyrir Íslendinga sem koma til landsins sem mun felast í að þeir fari einu sinni í skimun við landamæri, fari svo í stutta sóttkví heima, 5-6 daga, en fari svo aftur í skimun til þess að geta losnað endanlega úr sóttkví. Þá verða komnir tveir flokkar af sóttkví.
Allt ofangreint veldur því að það er að verða flóknara fyrir leikmenn að hafa yfirsýn yfir ástandið hér á landi og einmitt þegar því er svo farið, eru kjölfesta umfjöllunarinnar, upplýsingafundirnir, haldnir með óreglulegum hætti. Undanfarið hafa þeir þó verið samviskusamlega á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum. Nóg þótti áhugamönnum um veiruna um þá breytingu, þegar einnig var tekið upp á því að breyta tímasetningu birtingar daglegra tölfræðiupplýsinga, sem nú koma klukkan ellefu.
440 eru í sóttkví og gera má ráð fyrir að einhverjir í hópnum séu með veiruna en séu ekki hluti af þeim 10 virku smitum sem vitað er um. Átta smit hafa greinst á Landspítalanum á síðustu tveimur vikum. Einhver af þeim höfðu ekki greinst við landamæri heldur aðeins við sýnatöku númer tvö, en önnur eru niðurstaða innanlandssmits.
Í þessu óvissuástandi segir Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis, að áherslan hafi færst algerlega frá því að huga að tilslökunum takmarkana og yfir á að bregðast við ástandinu.
„Það eina sem við erum að hugsa um núna eru hópsmitin og við erum hætt að hugsa um afléttingu. Það er líka óhugsandi að vera að hækka úr 500 í 2.000 á meðan verið að eiga við hópsýkingu,“ segir Kjartan. „Það fer það mikil orka í smitin að það er ekki hægt að spá í hinu.“
Hann segir ótímabært að fullyrða um nýjar dagsetningar að svo stöddu. „Það verður gert um leið og við getum farið af stað í þessu og treystum okkur til að hefja þá vinnu. Það yrði óskynsamlegt af okkur að gefa út nýja dagsetningu til að vera síðan ekki í stakk búin að takast á við málin þegar hún rynni upp,“ segir Kjartan.