Katrín ræddi við norræna forstjóra

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fundar með norrænum forstjórum.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fundar með norrænum forstjórum. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, funduðu með, samtökum norrænna forstjóra, Nordic CEO‘s for Sustainable Future, í gegnum fjarfundabúnað í dag. Voru ráðherrarnir að fylgja eftir sameiginlegri yfirlýsingu forstjóranna frá því í fyrra að vinna að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Forstjórarnir kynntu þær skuldbindingar, sem fyrirtæki þeirra hafa gengist undir, fyrir forsætisráðherrunum. Áhersla er lögð á mikilvægi samstarfs stjórnvalda og einkageirans um að auka sjálfbærni og að efla aðgerðir í loftlags- og jafnréttismálum – sem eru heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna númer 5, 12 og 13. Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins.

„Heimsfaraldurinn hefur sýnt fram á að aukin samvinna ólíkra aðila í samfélaginu er lykillinn að því að hægt sé að bregðast hratt við miklum og óvæntum áföllum. Við þurfum að sama skapi að nýta þessa samvinnu til að hraða innleiðingu grænna lausna í því skyni að berjast gegn loftslagsbreytingum og tryggja að tæknibreytingar nýtist samfélaginu öllu,“ er haft eftir Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka