Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir í viðtali við Læknablaðið að gagnrýni hafi komið fram á störf hans sérstaklega í tengslum við faraldurinn og hann talinn vera að breytast í míní-hagfræðing. „Það er algjörlega algjört rugl. Ef menn segja það eru þeir úti að aka. Eins og ég hef sagt margoft þá kann ég ekki mun á debet og kredit,“ segir hann í léttum dúr í viðtalinu.
Aðspurður kveðst hann ekki hafa verið hissa á þeirri gagnrýni sem hann hafi mætt.
„Ég hef fengið harða gagnrýni frá læknum frá upphafi. Það er allt í lagi. Ég er ánægður að fá krítík því það neyðir mann til að hugsa hvort eitthvað sé til í henni, hugsa málin upp á nýtt. En svo kemst maður að niðurstöðu. Annaðhvort breytir maður um kúrs og segir gagnrýnina góða eða maður segir að hún sé ekki rétt og heldur áfram,“ segir Þórólfur í viðtalinu þar sem rætt er við þríeykið svonefnda, Þórólf, Víði Reynisson yfirlögregluþjón og Ölmu Möller landlækni.
Víðir bendir á að gagnrýni sé undirstaða góðrar ákvörðunartöku.
„Það er hættumerki í svona krísustjórnun ef enginn gagnrýnir það sem þú ert að segja. Á sama tíma vill maður sjá gagnrýni setta fram á faglegan hátt. Þannig hefur það verið í langflestum tilfellum,“ segir hann í samtali við Læknablaðið.
Þórólfur tekur fram að gagnrýnin sé óumflýjanleg. „Ég tel að við séum að gera þetta eins vel og við getum ef við stígum varlega til jarðar, vitum hvað við erum að gera, gerum það á yfirvegaðan máta, öflum vitneskju um hvað við eigum að gera og fylgjum því svo eftir. Ég held að það sé ekki hægt að krefjast annars af okkur, af öllum, af kerfinu,“ segir Þórólfur.
Í viðtalinu segir Alma frá því að þríeykið hafi mætt pressu þegar það leið á upplýsingafundina.
„Eins og við bærum ábyrgð á því að hér væri gríðarlegt atvinnuleysi. Ég stillti mig um að svara: Haldið þið að ríkisstjórnin ætli að láta tvo lækna og einn löggukarl ákveða framtíð landsins? Auðvitað verða aðrir að gera það og ríkisstjórnin er til þess kjörin. Núna þegar önnur sjónarmið fá meira vægi boðar ríkisstjórnin þessa fundi. Hún er komin meira fram fyrir skjöldu,“ segir Alma.
Hún ræðir einnig stöðu heilbrigðiskerfisins og bendir á að vegna smæðar landsins séu Íslendingar með viðkvæmt heilbrigðiskerfi. „Viðkvæmara en margar aðrar þjóðir, flestar,“ segir Alma.
„Þess vegna finnst mér mikilvægt að opna landamærin eins varlega og hægt er og reyna að hindra að smit komi að utan. Við munum örugglega ekki ná öllum en einhverjum. Það er þess virði.“ Samfélagið sé betur í stakk búið nú en þegar fyrsta smitið kom upp í febrúarlok.