„Gjörsamlega útilokað“ að taka við á þriðjudag

Karl G. Kristinsson, yfirlæknir sýkla og veirufræðideildar Landspítalans.
Karl G. Kristinsson, yfirlæknir sýkla og veirufræðideildar Landspítalans. mbl.is/Árni Sæberg

Karl G. Kristinsson, yfirlæknir á veirufræðideild Landspítalans, segir deildina ekki í stakk búna til þess að taka við landamæraskimun af Íslenskri erfðagreiningu fyrr en í lok ágúst. 

Kári Stef­áns­son, for­stjóri Íslenskr­ar erfðagrein­ing­ar, sendi í dag Katrínu Jak­obs­dótt­ur for­sæt­is­ráðherra bréf þar sem hann til­kynnti henni að þætti Íslenskr­ar erfðagrein­ing­ar í skimun á kór­ónu­veirunni væri lokið eft­ir 13. júlí. 

Karl segir að nú sé unnið að því að auka afkastagetu veirufræðideildarinnar, en það sé gert samkvæmt áætlun sem gerði ráð fyrir því að Íslensk erfðagreining sæi um landamæraskimun út ágústmánuð. 

„Íslensk erfðagreining ætlaði að taka þetta út ágúst og við ætluðum að vera búin að auka afkastagetuna þá. Við erum að fá mikið af sjúklingasýnum inn og það er mikið að gera. Það er verið að brjóta niður veggi og gera breytingar til þess að koma fyrir nýjum tækjum. Það er gjörsamlega útilokað að þetta verði klárt næsta þriðjudag,“ segir Karl. 

„Ef það á að halda áfram skimun á ferðamönnum sé ég ekki annað í myndinni [en að ÍE haldi skimun áfram] því þetta eru það mörg sýni að við höfum ekki afkastagetu ofan á öll þau sjúklingasýni sem við fáum til að taka við þessu sem væntanlega kemur til með að aukast næstu daga og vikur,“ segir Karl. 

Aðstæðurnar aðrar í ágúst 

Karl segir að aðstæður á veirufræðideildinni verði allt aðrar í lok ágúst en þær eru nú. 

„Ég veit svosem ekki hvað við náum nákvæmlega að taka mörg sýni þá, en við eigum eftir að fá afkastamesta tækið sem kemur í haust og afkastar yfir 4.000 sýnum á sólarhring. Það er bara svo mikil eftirspurn eftir því að við fáum það því miður ekki fyrr. ÍE er með svona samstæður aðrar en ekki þetta tæki sem við eigum von á,“ segir Karl. 

„Við ætluðum að nota þennan tíma núna í sumar til þess að gera þær breytingar sem þarf til að auka afkastagetuna. Sú vinna er bara í gangi og akkúrat núna er verið að rífa niður veggi svo aðstæður eru enn erfiðari en undir venjulegum kringumstæðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert