Röksemdir læknanna vegi ekki þungt

Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kári Stefánsson telur einsýnt að áfram þurfi að skima ferðamenn við komuna til landsins. Helmingur smitaðra sé einkennalaus og því engan veginn hægt að reiða sig á að fólk fari sjálft í einangrun í tæka tíð fari það að finna fyrir einkennum.

Hann segir röksemdir lækna sem hvetja til þess að látið sé af skimun við landamærin ekki vega þungt. Kostnaðurinn sé helst nefndur sem röksemd, en Kári bendir á að síst minni kostnaður hljótist af því fyrir samfélagið að hundruð og þúsundir manna flykkist í sóttkví.

Kári: „Eina röksemdin sem þau hafa komið með er að þetta sé svo dýrt. En ef maður lítur á það sem hefur gengið á í þessari skimun, þá höfum við misst af tveimur illa smitandi einstaklingum inn í samfélagið. Ein kona sem kom frá Bandaríkjunum en önnur frá Albaníu. Við fundum þær ekki af því að þær urðu lasnar heldur vegna þess að, í fyrra tilvikinu, var hringt í konuna frá Bandaríkjunum og henni sagt að hún hafi verið í návígi við smitaðan, og í seinna tilvikinu hringdi flugfélagið og gerði viðvart um smit um borð í flugvélinni.

Þrátt fyrir að þessar tilkynningar bærust höfðu þær þegar smitað fjóra hvor um sig. Ímyndaðu þér að þær hefðu ekki borist, og þær hefðu leikið lausum hala áfram, báðar greinilega með gífurlegt magn af veirunni (e. viral load). Bara á grundvelli þessara tveggja einstaklinga fóru um 700 í sóttkví, sem eru um 10.000 sóttkvíardagar. Er það ekki kostnaður fyrir samfélagið?“

Skima eða loka landinu

Ragnar Freyr Ingvarsson, sérfræðilæknir á göngudeild COVID-19 á Landspítalanum, hefur lagt til að látið verði af skimunum á ferðamönnum við landamærin og Sigurður Guðmundsson fyrrverandi landlæknir og Bryndís Sigurðardóttir smitsjúkdómalæknir hafa lýst svipuðum sjónarmiðum. Þau telja æskilegra að leita frekar uppi þá sem hafa einkenni og spara þar með þá fjármuni sem annars færu í skimunina. 

„Ég er hræddur um að þetta sé ekki spurning um að hafa landið áfram opið og annaðhvort skima eða skima ekki, heldur spurning um að annaðhvort hafa opið og skima, eða loka bara landinu,“ segir Kári.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur sagt að skimunin verði með óbreyttum hætti út júlí, en að þá taki við nýtt fyrirkomulag á grundvelli þess mynsturs sem greina megi hjá ferðamönnunum sem hafa streymt inn í landið frá 15. júní. Hvort tiltekin lönd séu öruggari en önnur.

Nánar er rætt við Kára í Morgunblaðinu á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert