Ferðasumarið 2020 fór vel af stað um mánaðamótin þegar Íslendingarnir byrjuðu fyrir alvöru að taka sér sumarfrí og nota það til að ferðast um eigið land
. Erlendir ferðamenn hafa einnig komið með vaxandi þunga eftir að byrjað var að skima flugfarþega og farþega Norrænu fyrir kórónuveiru.
Fólk sem vinnur í ferðaþjónustunni lætur vel af sér þótt ekki búist allir við að sumarið verði jafngott og verið hefur undanfarin ár.
„Íslendingar eru komnir af stað í sumarfrí og þeir virðast keyra meira og fara víðar en við höfum séð erlendu ferðamennina gera,“ segir Jón Ólafur Halldórsson, framkvæmdastjóri Olís.
„Maður hefur ekki undan að segja nei, það er fullbókað þessa vikuna og helgarnar löngu farnar,“ segir Edda Arinbjarnar, móttökustjóri í Hótel Húsafelli, í umfjöllun um ferðalög í Morgunblaðinu í dag.