„Ég lokaði í dag með hlemmi myndverkinu mínu Bollasteini við Kisuklappir á Seltjarnarnesi. Ástæðan eru náttúruspjöll sem unnin voru á umhverfi myndverksins og sem var órjúfanlegur hluti þess,“ skrifar listakonan Ólöf Nordal á Facebook fyrir tæpri viku. Fjallað er um málið í Fréttablaðinu í dag.
„Ég er mjög hrygg yfir gjörningi þeim sem átt hefur sér stað við Kisuklappir. Fjörukamburinn og fjaran eru nú aðflutt möl og grjót sem tekið hefur yfir náttúrulega fjöruna og lífríki hennar. Ég er í samtali við Seltjarnarnesbæ og mér er lofað að allt utanaðkomandi grjót og möl verði fjarlægð og að fjaran verði endurheimt í sinni náttúrulegu mynd. Ég krossa fingur og vona að bærinn standi við þau orð, ekki bara vegna framtíðar eigin myndverks, heldur rétti náttúrunnar sem virðist ekki eiga sér málsvara.
Það er snúið að endurgera náttúru sem hefur glatast, en ég vil samt trúa því að undir þessum bílhlössum sé fjaran eins og hún hefur verið í árhundruði og að það takist að endurheimta Kisuklappir og fegurðina á þessum viðkvæma stað,“ skrifar Ólöf ennfremur á Facebook og birtir myndskeið með.