Ragnhildur Þrastardóttir
Ríkisstjórnin þarf að horfa sérstaklega á atvinnustigið í landinu og gera sitt til að draga úr atvinnuleysi, að sögn Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Markmið stjórnvalda í komandi áætlunum verður að draga úr atvinnuleysi.
Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra segir að gert sé ráð fyrir að um 8.700 ársverk muni skapast í samgönguframkvæmdum á næstu fimm árum. Spurður hvort möguleiki sé á að störfin verði enn fleiri segir Sigurður:
„Alla vega ekki færri.“
Búist er við því að um 20.000 manns verði á atvinnuleysisskrá í haust. Það sem af er ári hafa 37,5 milljarðar runnið úr ríkissjóði í atvinnuleysisbætur.
„Við þurfum að horfa sérstaklega á atvinnustigið í landinu, við þurfum að draga úr atvinnuleysi þannig að eitt af okkar markmiðum í komandi áætlunum verður að draga úr atvinnuleysi, fjölga störfum og vernda störf. Ég lít þannig á að þetta sé stóra verkefni stjórnmálanna núna á næstu misserum,“ segir Katrín.
„Það sem við höfum verið að stefna að er að vera með fjárfestingarátak í því skyni að hækka atvinnustigið og fjölga störfum og eitt af því sem við höfum verið að leggja áherslu á heyrir undir mig, þar eð að segja samgöngumálin, og við höfum verið að spýta verulega í þar í því skyni að skapa fleiri störf. Við höfum metið það svo að á næstu fimm árum séu um 8.700 ársverk í þessum samgönguverkefnum sem eru núna fram undan samkvæmt nýsamþykktri samgönguáætlun,“ segir Sigurður.