Í dag eru liðin 75 ár frá því að íslenskt farþegaflug milli Íslands og annarra landa hófst. Fyrsta farþegaflugið með íslenskri vél var farið frá Reykjavík til Largs Bay í Skotlandi, en þar var á ferðinni fyrsti PBY-5 Catalina flugbátur Flugfélags Íslands. Var umrætt flug farið skömmu eftir að síðari heimstyrjöldinni lauk sumarið 1945.
Höfðu forystumenn bæði Flugfélags Íslands og Loftleiða, forvera Icelandair, keypt flugbáta á árinu á undan í Bandaríkjunum með það í huga að hefja flug til annarra landa. Loftleiðamenn keyptu Grumman-flugbát og Flugfélagsmenn Catalina-flugbát og á þeim flugvélum var flogið til að byrja með.
En segja má að fyrsta raunverulega millilandaflugvél Íslendinga hafi verið hin 46 farþega Douglas DC-4 Skymaster, sem ýmist var kölluð Hekla eða „Fjarkinn“, en Lofleiðir hófu rekstur hennar 1947.
Sérstök athöfn var haldin í Skotlandi í tilefni af því að 70 ár voru liðin frá framangreindu flugi árið 2015, en tímamótunum var fagnað með ýmsum hætti sama sumar.