Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar hefur gert kröfu á stjórnvöld upp á „hundruð milljóna“ fyrir hönd félagsmanna sinna sem hafa leitað til Eflingar vegna aðgerðaleysis stjórnvalda vegna ógreiddra launa, launaþjófnaðar, stuldi á desember- og orlofsuppbót og „annarrar glæpahegðunar atvinnurekenda“.
RÚV greindi fyrst frá en Sólveig birti bréf til stjórnvalda á Facebook-síðu sinni í kvöld þar sem hún sagðist áskilja sér rétt á að knýja á um að stjórnvöld stæðu við gefin loforð um að bæta aðstæður vinnandi fólks ef ríkisstjórnin gerir ekkert í málunum.
Bréfið er stílað á fimm ráðuneyti; forsætis-, atvinnuvega- og nýsköpunar-, dómsmála-, félagsmála-, og fjármála- og efnahagsráðuneytið.
Í bréfinu reifar Sólveig forsögu málsins og segir að á síðasta ári hafi Efling gert hátt í 700 kröfur fyrir félagsfólk sitt, samtals upp á ríflega 345 milljónir króna. Er meðalupphæð sem Efling sendir út 492.000 krónur og bendir Sólveig á að það sé „miklu hærri upphæð en láglaunamanneskja fær á mánuði fyrir 100% vinnu.“ Þá hafa þúsundir leitað til Eflingar vegna ofangreindra brota.
Sólveig bendir á að ríkisstjórnin hafi lofað því að auka heimildir til refsinga ef atvinnurekandi brýtur gegn lágmarkskjörum launamanna. Ríkisstjórnin hefur, að sögn Sólveigar, ekki staðið við stóru orðin.