Vinsældir rafhlaupahjóla hafa stóraukist og eru nú 300 rafhlaupahjól á götum Reykjavíkur. Samanlagt hafa þau ferðast yfir 500.000 km, sem jafngildir ferð til tunglsins og rúmlega það.
Breyttar samgöngur kalla eftir breyttu lagaumhverfi og hafa því verið kynnt ný drög að reglugerð um reiðhjól og rafhlaupahjól, þar sem fjöldi farþega er takmarkaður og öryggiskröfum lýst.
Reglugerðin breytir því þó ekki að óheimilt er að aka hjólum og rafhlaupahjólum hraðar en á gönguhraða á göngugötum, samkvæmt umferðarlögum nr. 77/2019. Reiðhjólamönnum er heimilt að aka á akbrautum en umferð rafhlaupahjóla er þar óheimil.
„Þessi umferðarlög eru gefin út í fyrra en gerðu ekki að ráð fyrir þessum tækjum. Það þarf að uppfæra lögin í samræmi við tæknina og það er eðlilegt að svona aðstæður komi upp,“ segir Eyþór Máni Steinarsson, rekstrarstjóri Hopp, sem mun leggja til að umferð rafhlaupahjóla verði heimil á akbrautum, til þess að auka öryggi vegfarenda.
„Við munum leggja til í umsögn að þessari heimild verði bætt við. Það er almennt talað um það í reglugerðinni að gera sérflokk um rafhlaupahjól, sem væri líka fullkomlega eðlilegt, svo reglurnar endurspegli núverandi umhverfi. Það þyrfti að vera hægt að vera á rafhlaupahjólum á götunum og göngugötum líkt og gildir um reiðhjól,“ segir Eyþór og heldur áfram:
„Síðan er hægt að spyrja sig hverjum er betra að deila vegakerfinu með, rafmagnsökutækjum, hvort það eru göturnar eða gangstéttirnar. Að sjálfsögðu ættu göturnar að deila sínu vegakerfi með rafhlaupahjólum frekar en gangstéttirnar, þar sem gangandi vegfarendur fara hægar og eru ekki með brynju af bíl í kringum sig,“ segir Eyþór.
Í núgildandi umferðarlögum er ekki að finna skilgreiningu á rafhlaupahjólum og eru þau flokkuð undir reiðhjól, með þeirri undantekningu að þeim megi ekki aka á akbraut. Aðspurður segir Eyþór að líklega þyrfti lagabreytingu til að heimila akstur rafhlaupahjóla á akbraut.
„Samvisku reiðhjólamanna er treyst hverju sinni, til dæmis til að hjóla ekki á Sæbrautinni. En meðalhraði rafhlaupahjóla gæti samt verið töluvert hærri en reiðhjóla,“ segir Eyþór og bætir við að honum væri heimilt að fara hringveginn á hjóli en ekki rafhlaupahjóli.
„Við trúum því að létt rafdrifin farartæki séu ferðamáti framtíðarinnar,“ segir Eyþór að lokum.
Lögreglan hefur heimild til að sekta hjólreiðamenn um 20 þúsund krónur fyrir ógætilegar hjólreiðar á göngugötu, samkvæmt reglugerð um sektir sem sett var í kjölfar umferðarlaga nr. 1240/2019. Kemur þetta fram í svari Samgöngustofu við fyrirspurn Morgunblaðsins um hvort lögregla hefði heimild til að beita sektum við akstri umfram gönguhraða á göngugötum á rafhlaupahjólum.
Eyþór Máni Steinarsson, rekstrarstjóri Hopp, segir leiguhjólin uppfylla öll skilyrðin sem sett eru í drögunum.
8. gr. draganna er sérstaklega tileinkuð rafhlaupahjólum og er þar í fyrsta sinn lagt bann við fleiri en einum farþega á rafhlaupahjólum. Þá er í 10. gr. lagt til að viðurlög verði samkvæmt reglugerð um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum og reglum á grundvelli þeirra.