Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður velferðarnefndar Alþingis, segir ákvörðun Icelandair Group um að segja öllum flugfreyjum félagsins upp óforsvaranlega.
„Mer finnst þetta bara alger lágkúra. Nú verða stjórnvöld að senda skýr skilaboð um að svona gerir maður ekki. Maður sér bara fyrir sér afleiðingarnar ef stjórnvöld bregðast ekki við með neinum hætti. Hvað verður þá um kjaraviðræður til framtíðar, þegar svona stórt félag hefur svona lítinn móralskan sans?“ segir Helga Vala við mbl.is.
Icelandair tilkynnti í dag að til stæði að leitast við að gera kjarasamning við annað flugfreyjufélag en Flugfreyjufélag Íslands, eftir að tilraunir til að gera samning við félagið runnu út í sandinn. Um 900 flugfreyjur voru þegar á uppsagnarfresti en ákvörðunin hefur það í för með sér að þær 40 sem voru enn við störf hætta á mánudaginn og flugmenn ganga í störf þeirra.
„Við hljótum öll að bíða eftir að það komi útspil frá ríkisstjórninni vegna þessa. Allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa meira og minna miðað að þessu félagi og það er eðlilegt að gerð sé krafa um að það hegði sér ekki svona,“ segir Helga.
Fram hefur komið að stjórnvöld séu undirbúin að lána Icelandair ef hlutafjárútboð fer að óskum og Helga segir einnig að í ljósi slíkra fyrirætlana sé eðlilegt að gerðar séu kröfur um framgöngu fyrirtækisins. Óljóst er hvort samið verði við íslenskt stéttarfélag eða erlent.
„Það er brúkað í sumum ríkjum að semja við erlendar starfsmannaleigur sem leigja út svona flugfreyjur og -þjóna, en viljum við að þetta sé þannig með okkar stóra flugfélag, sem hefur verið að fá ofboðslegan stuðning á síðustu mánuðum? Það getur ekki bara tekið ákvörðun um að knésetja heilt stéttarfélag,“ segir Helga Vala.