Óánægður með Twitter-fréttirnar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra skrifar grein í breska tímaritið Spiked í dag. Hún er löng, snertir á ýmsum viðfangsefnum og rekur meðal annars atburði íslenskrar nútímasögu í samhengi við feril sjálfs Sigmundar. Sigmundur leggur áherslu í greininni á samspil samfélagsmiðla og fjölmiðla og þar með um leið áhrif miðlanna á stjórnmálin, sem „geti orðið mjög jákvæð eða gríðarlega skaðleg.“

Sigmundur segir að á öld samfélagsmiðla sé samkomulag um raunverulega mikilvæg pólitísk mál einfaldlega ómögulegt, sama hve borðleggjandi staðreyndir málsins kunna að vera. Ótakmarkaður aðgangur að óritstýrðum upplýsingum og kerfi þar sem þeir leiða umræðuna sem hæst gelta muni ekki skapa samkomulag eða auka traust á stjórnmálunum.

„Það sem gerir ástandið verra er að hefðbundnir fjölmiðlar hafa tilhneigingu til þess að auka enn á þetta ástand, í stað þess að leggja áherslu á vandlega unnið gæðaefni í staðinn. Vissulega eru hefðbundnir miðlar komnir í erfiða stöðu þar sem þeir eru tilneyddir til þess að elta smellina með því að birta sjónarmið hinna æstustu og hneyksluðustu. Því afdráttarlausari afstaðan, því líklega er að fréttinni verði deilt. Síðan stunda miðlarnir það kerfisbundið að henda reiður á viðburði og fréttir líðandi stundar með hliðsjón af því hvað þeir áköfustu á Twitter sögðu um málið. Þar er hundurinn farinn að elta skottið á sjálfum sér (e. the tail has started wagging the dog).“

Samskipti á Facebook gerðu útaf við ríkisstjórnina

Máttur samfélagsmiðlanna hefur aðeins hafa farið vaxandi frá íslenska bankahruninu, sem Sigmundur segir að hafi til að mynda komið skýrt fram þegar ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar sprakk árið 2017. 

„Ég fylgdist með því hvernig samskipti á Facebook gerðu útaf við ríkisstjórn landsins á nokkrum klukkustundum og úrslitaákvörðunin var tekin á snarlega boðuðum miðnæturfundi í kjölfar umræðna á netinu. [...] Án þess að farið sé út í tildrög þessarar atburðarásar, er orðið ljóst að atburðir sem áður hefðu verið álitnir minniháttar eða hefðu áður dáið hægt og rólega út á síðum dagblaðanna á nokkrum dögum (eða á nokkrum árum í gegnum rannsókn) geta nú verið kveikurinn að pólitískri kjarnakeðjuverkun,“ skrifar Sigmundur.

Fór að gagnrýna stjórnvöld sem blaðamaður

Sigmundur rifjar það meðal annars upp í greininni að hann hafi unnið sem fréttamaður (á RÚV) í aðdraganda bankahrunsins og að þátttaka hans í stjórnmálum hafi hafist um það leyti. „Sem blaðamaður hóf ég að gagnrýna fjármálastofnanir og stjórnvöld í landinu snemma árs 2007 en þegar bresk ríkisstjórn undir forystu Gordon Brown ákvað að setja hryðjuverkalög á Ísland til þess að endurheimta fé sem hún gerði kröfu um, sá ég það sem tilraun til þess að kúga fé út úr íslensku ríkisstjórninni á sama tíma og Brown hafði sagt landið gjaldþrota,“ skrifar Sigmundur.

Í kjölfarið hafi hann ásamt öðrum staðið að InDefence hópnum, sem hafði leitast við að verja hagsmuni Íslands í þessu máli. „Með því að nota samfélagsmiðla gat þannig lítill hópur fólks án nokkurs formlegs umboðs staðið uppi í hárinu á ríkisstjórnum, Evrópusambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, og þannig unnið sér inn stuðning fólks í tugum ríkja víða um heim,“ skrifar Sigmundur.

Greinin birtist í Spiked, sem er breskt tímarit stofnað um aldamótin eftir að forveri þess, Living Marxism, fór á hausinn eftir lögsókn. Svo að örugglega sé vísað í samfélagsmiðla í þessari frétt, segir Stefán Pálsson á Facebook-síðu sinni, þar sem hann vekur athygli á grein Sigmundar, að blaðið hafi að upplagi verið málsvari þess sjónarmiðs að allir ættu sér nokkrar málsbætur sama hvar þeir stæðu í stjórnmálum. Undanfarin ár hafi blaðið þó verið komið á skringilega leið, sem Stefán segir hafa verið fullkomnuð með grein Sigmundar í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert