„Mikilfenglegasta veður sem ég hef séð“

Freyðibað í Kistuvogi, eins og þar segir. Mikil froða myndast …
Freyðibað í Kistuvogi, eins og þar segir. Mikil froða myndast sem síðan rís í öllum ölduganginu, eins og sjá má á myndskeiði hér að neðan. Skjáskot/XU Haotian

Höfuðskepnurnar hafa sýnt mátt sinn og megin á Vestfjörðum og Norðurlandi frá því á fimmtudaginn og „nánast ofsaveður“ hefur riðið þar yfir, eins og Hrafn Jökulsson orðar það í samtali við mbl.is. 

„Þetta var mikilfenglegasta veður sem ég hef séð að sumarlagi hér á þessum slóðum. Ég kom hér fyrst fyrir 46 árum og hvorki ég né aðrir elstu menn munum annað eins úrhellisregn. Þetta var engu líkt,“ segir Hrafn, sem er staddur í Norðurfirði á Ströndum og segir nú loks sjá fyrir endann á veðrinu, þó að enn rigni.

Veðrið virtist að sögn Hrafns ætla að ganga niður í hádeginu í dag en tók sig að nokkru leyti aftur upp. „Nú er aftur byrjað rigna og við vitum ekki hvaðan á okkur stendur veðrið beinlínis,“ segir Hrafn. 

Ljósmynd/XU Haotian

Hrafn fór í skoðunarferð í gær og fylgdist með veðurhamnum. „Það var mikilfenglegt að fylgjast með þessu og briminu, sem var hér hvítfyssandi út á haf með tröllvöxnum öldum. Þó að ég sé ýmsu vanur var stórbrotið að fylgjast með náttúruöflunum, þar sem þau sungu sína synfóníu á hástigi,“ lýsir Hrafn.

Drógu fram veðurgleggstu menn

Hrafn sér fram á að með kvöldinu skáni veðrið en auk úrkomunnar er bálhvasst. „Þetta ætti að vera síðasti þátturinn í þessu mikla drama sem hefur verið á boðstólnum hér síðan á fimmtudaginn. Þó að Veðurstofan sé ágæt erum við farin að draga hér fram veðurgleggstu menn og þeir staðhæfa að fallegur mjólkurlitur á himni sem leggst yfir fjöllin boði að undir miðnætti getum við aftur farið að njóta birtunnar, og að sólin verði í hátíðarskapi á morgun,“ segir Hrafn. 

Úrkoman hefur verið slík að allt er enn á floti á svæðinu. Hrafn segir þetta ekki hafa skapað hættu svo nokkru nemi þó að gera hafi þurft ráðstafanir eins og að dæla úr einstaka fullum báti við höfnina.

Hreinsuðu fjörur í veðrinu

Þó að Hrafn segi að á tímapunkti hafi ekki verið hundi út sigandi er meðaumkunin minni með mönnunum og hann sjálfur fór ásamt föruneyti í dag að hreinsa fjörur bæði í Ingólfsfirði og við Finnbogastaði.

Fjöruhreinsun á Ströndum.
Fjöruhreinsun á Ströndum. Ljósmynd/Hrafn Jökulsson

„Þetta eru vaskir sjálfboðaliðar frá Veraldarvinum frá þremur heimsálfum sem stóðu sig eins og herforingjar í rigningunni hér í morgun sem var þá orðin að hefðbundnu íslensku roki og rigningu. Þau unnu að kappi en loks varð ég að senda þau inn í hús, enda ekki þurr þráður á þeim eftir afrek dagsins. En það jafnast ekkert á við að skila góðu dagsverki í svona veðri,“ segir Hrafn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert