Afkoma ríkissjóðs var neikvæð um 39 milljarða króna á síðasta ári. Fjárlög þess árs höfðu hins vegar gert ráð fyrir 29 milljarða króna afgangi. Var niðurstaða ríkissjóðs því 68 milljörðum króna lakari á árinu en gert hafði verið ráð fyrir. Þetta kemur fram í endurskoðuðum ríkisreikningi ársins 2019 sem Fjársýsla ríkisins birti á dögunum.
Skatttekjur ríkisins námu 654 milljörðum króna, 44 milljörðum minna en áætlað var í fjárlögum. Þá námu tryggingagjöld tæpum 97 milljörðum samanborið við 101 milljarð samkvæmt fjárlögum. Aðrar tekjur skiluðu ríkinu 76 milljörðum, samanborið við 93 milljarða samkvæmt fjárlögum. Alls voru tekjur ríkisins því 64 milljörðum minni en áætlanir gerðu ráð fyrir. Þá voru gjöld ríkisins fjórum milljörðum yfir áætlun.
Heildarskuldir ríkissjóðs námu um 1.920 milljörðum króna um áramótin og höfðu þá hækkað um 20% að nafnvirði milli ára. Inni í þessum tölum eru ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs. Hækkuðu langtímaskuldir um 22% en það skýrist að miklu leyti af færslu 180 ma.kr. hlutdeildar ríkissjóðs í skuldum dótturfélaga með neikvæða eiginfjárhlutdeild, einkum vegna breytinga á Íbúðalánasjóði, að því er segir í greiningu Hagsjár Landsbankans.