Alla tíð fundist þetta mikill ófögnuður

Guðjón hóf átakið á Skólabrú og nágrenni og fjarlægði 274 …
Guðjón hóf átakið á Skólabrú og nágrenni og fjarlægði 274 tyggjóklessur. Ljósmynd/Aðsend

„Mér hefur alla tíð fundist þetta mikill ófögnuður að sjá þetta á götum,“ segir Guðjón Óskarsson sem stendur fyrir átakinu Tyggjóið burt.

Guðjón, sem er sjötugur Reykvíkingur, hefur sett sér það markmið að ná sem flestum tyggjóklessum af gangstéttum Reykjavíkurborgar, og þá sérstaklega í miðborginni, á 10 vikum og hófst átakið á Skólabrú í dag.

„Það gekk hægt, en það gekk. Ég var truflaður svolítið og svo var þetta fyrsti dagurinn svo ég var að ná tökum á þessu. Þetta er ekki tekið út með sældinni, að taka þetta upp, en það tókst. Ég tók einhverjar 274 klessur,“ segir Guðjón í samtali við mbl.is.

Fara verður um áratug aftur í tímann til þess að skoða hvernig Guðjón hóf að fjarlægja þennan ófögnuð af götum, og þá ekki á götum Reykjavíkur heldur á Spáni.

Fá verkefni að fá á Spáni

„Þá bjó ég á Spáni og lenti í hjartaáfalli og þurfti að finna mér eitthvað sem ég gat ráðið við á meðan ég var að jafna mig. Það var þetta, að kaupa svona vél og bjóða Spánverjunum upp á að taka tyggjóið. Því miður þá var þetta rétt eftir hrunið. Spánverjinn sagði bara ,hvað, þetta þarna, þessar svörtu klessur‘, því þær eru svartar á Spáni því þar rignir svo lítið, en eru hvítar hérna hjá okkur. Þeir bentu á klessurnar og sögðu ,þetta er búið að vera þarna í 18 ár, þannig ég náði fáum verkum þar,“ rifjar Guðjón upp.

Eimskip styrkti Guðjón til dagsverksins í dag.
Eimskip styrkti Guðjón til dagsverksins í dag. Ljósmynd/Aðsend

„Svo ég hef komið að þessu áður. Svo bara lenti ég í því að ég var að vinna í ferðaiðnaðnum hér og missti vinnuna og ég hef aldrei verið aðgerðalaus á minni ævi, svo mér fannst þetta bara stórsniðugt að taka þetta upp aftur. Það er komin ný tækni, nú get ég verið með þetta allt á bakinu og þarf ekki rafstöð við hliðina á mér. Þetta er bara rafdrifið eins og skutlurnar, með batteríi sem ég hleð. Þetta er alveg frábært.“

Guðjón leggur sjálfur út fyrir öllum kostnaði við verkefnið en vonast til þess að fá styrki frá einstaklingum og fyrirtækjum. „Ég er bara að gera þetta upp á von og óvon um að ég fái einhverja styrki, en ég verð bara að segja það að mér er mjög vel tekið. Ég efa það ekki að ég nái þessum kostnaði til baka og það getur vel verið að ég nái einhverjum launum líka.“

„Enginn að pæla í þessu“

„Mig langar svo að vekja athygli á þessu, það er enginn að pæla í þessu,“ segir Guðjón, en til þess að vekja enn meiri athygli ætlar hann að efna til keppni þar sem fólki býðst að giska á hversu margar tyggjóklessur hann fjarlægir af tilteknum götum. 

„Ég ætla að byrja á Vegamótastíg á föstudaginn kemur, og fólk hefur þá vikuna [til að giska]. Þessi leikur fer á eftir á Facebook og síðan giskar fólk á og ég vona að einhver taki þátt í þessu. Svo á föstudaginn ætla ég að byrja klukkan 11 og loka leiknum klukkan 12,“ segir Guðjón. „Þetta er upplögð gata, hún er stutt og það er þokkalega mikið líf í henni og þar er mikið gengið á milli Skólavörðustígs og Laugavegs. Ég held það geti orðið svolítið gaman.“

Guðjón heldur úti, með dyggri aðstoð sonar síns, bæði Facebook-síðu og Instagram-reikning, auk vefsíðu þar sem fylgjast má með og styrkja verkefnið, og vilji fólk taka þátt í leikjunum er best að fylgja verkefninu eftir á Facebook.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert