Sýnir hvað gæti gerst hér á landi

„Þetta er það sem við höfum verið að tala um að gæti gerst, sérstaklega þegar fólk er ekki að passa sig,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir um nýlega hópsýkingar kórónuveirunnar í Evrópu og víðar.

mbl.is greindi frá því um helgina að íbúar Barcelona hefðu verið hvattir til að halda sig heima nema brýna nauðsyn bæri til eftir að kórónuveirutilfellum fjölgaði mikið í borginni. Þá hefur smitum fjölgað á svæðum þar sem fáir hafa smitast af veirunni, líkt og í Hong Kong, þar sem tilkynnt var um hópsmit um helgina.

Þórólfur segir í samtali við mbl.is þetta sé áhyggjuefni og sýni hvað geti gerst ef fólk gætir ekki að einstaklingsbundnum sýkingarvörnum. „Þetta sýnir hvað getur gerst hér ef við slökum á.“

Tölur á covid.is lagfærðar

Um 63 þúsund ferðamenn hafa komið til landsins frá fimmtánda júní, og búið er að skima um 45 þúsund manns. Þá hafa greinst 18 virk smit sem borist hafa erlendis frá. Þrír voru sendir í einangrun um helgina vegna virkra smita, tveir á laugardag og einn á sunnudag, en samtals eru átta manns í einangrun á landinu.

Þórólfur segir að tölurnar hafi verið lagfærðar lítillega vegna ósamræmis í tölunum á covid.is. Hann segir að tölfræði um virk smit, óvirk smit, og fólk sem biði eftir niðurstöðum hafi valdið nokkrum ruglingi, svo ákveðið var að greina betur frá þeim sem voru með virk smit annars vegar og óvirk smit hinsvegar. „Þannig að núna eru þetta eðlilegri tölur, raunverulegri tölur en þetta voru.“

Kippir sér ekki upp við fregnir af bóluefnum

Nýlega bárust fregnir um að prófanir á nýju bóluefni gegn kórónuveirunni sem vísindamenn við Oxford-háskóla hafa þróað þykja hafa skilað góðum árangri.

Þórólfur segir að slíkar fregnir berist oft, og að ekki sé skynsamlegt að kippa sér upp við þær. „Það eru alltaf af og til að koma alls konar fregnir og menn berja sér á brjóst.“

Erfitt geti verið að átta sig á hvað sé marktækt í þeim málum og hvað ekki, en hann segir best að bíða eftir frekari fregnum áður en fólk fer að hrósa happi yfir bólusetningum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert