Mesta júlífrost á Þingvöllum í áratug

Ekki hefur mælst meira næturfrost á Þingvöllum í júlí síðan …
Ekki hefur mælst meira næturfrost á Þingvöllum í júlí síðan árið 2009. mbl.is/Golli

Næturfrost mældist á Þingvöllum í nótt, en hiti fór niður í -1,5 gráður og er það mesta næturfrost í júlí frá því árið 2009. Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur greinir frá þessu í færslu á Facebook. Hiti féll úr 10,1 gráðu klukkan 22 í 1,7 gráður klukkan 1 um nótt. Um klukkan 3:15 hafði hiti náð lággildinu, -1,5 gráður.

Í samtali við mbl.is segir Einar að kjöraðstæður hafi verið fyrir kulda og því hafi hiti fallið mjög skarpt. Lygnt hafi verið og heiðskírt og útgeislun því mikil. „Þingvellir eru sá staður á Suðurlandi þar sem loftslagið er hvað líkast meginlandsloftslagi,“ segir Einar, enda sé þjóðgarðurinn fjarri sjónum sem temprar hitastigið. Þannig hefur til að mynda aldrei mælst frost í júlímánuði í Reykjavík. 

Norðan- og austanáttir eru ríkjandi þessa dagana og segir Einar að fleiri bjartar og svalar sumarnætur séu í vændum sunnanlands. Því sé ekki loku fyrir það skotið að frostnæturnar á Þingvöllum verði fleiri.

Síðast þegar frost mældist í júlí á Þingvöllum, árið 2009, segir Einar að aðstæður hafi þó verið allt aðrar. „Þá var svörðurinn svo þurr að það líktist eyðimerkurástandi,“ segir hann. Enginn raki hafi verið í yfirborðinu til að tempra hitabreytingar.

Veðurvefur mbl.is



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert