Leikkonunni Þórdísi Björk Þorfinnsdóttur hefur verið hótað bæði lífláti og nauðgun á samfélagsmiðlinum Instagram eftir að myndband þar sem hún gerði grín að smábæjunum Kópaskeri og Raufarhöfn fór í dreifingu. Fréttablaðið greinir frá þessu og birtir skjáskot af ansi ógeðfelldum færslum sem Þórdísi hafa borist. Hún segist munu kæra hótanirnar til lögreglu.
Þórdís er meðlimur í leikhópnum Lottu, en í myndbandi, sem hún setti á Instagram eftir sýningar leikhópsins í bæjunum, skrifar hún: „Jæja þá erum við búin að koma á helv. Kópasker“ og heldur svo áfram: „Keyrðum á Kópasker og Raufarhöfn bara til að geta krossað það út af listanum, mæli alls ekki með að koma hingað, bara alls alls ekki gera það.“
Eftir að fjallað var um málið í fjölmiðlum fóru skilaboðin að berast.
„I alvoru eg sver eg kem HEIM TIL ÞÍN OG geng i skrokk á þér þangað til þú verður óþekkjanleg tussan þín taktu þetta egó og troddu því í rassgatið í þér fífl [sic],“ segir í skilaboðum sem einn notandi sá ástæðu til að senda henni.
Annar, sem segist vera fæddur og uppalinn á Raufarhöfn, segir Þórdísi að skammast sín fyrir sín viðbjóðslegu ummæli. „Þú myndir ekki hlæja og grínast svona ef það væri búið að nauðga þér og svo drepa þig en ég skal glaður taka það að mér,“ segir annar notandi og klykkir út með: „Eg veit hvar þu att heima og þu skalt vera hrædd [sic].“